Greiningardeild Arion banka spáir 0,5 prósentustiga vaxtalækkun á þessu ári eftir að Már Guðmundsson seðlabankastjóri hafi gefið vísbendingar um að frekari lækkun vaxta og afnám bindiskyldu á erlenda fjárfestingu séu á næsta leiti. Þetta kemur fram í nýbirtum markaðspunkti Arion.
Í viðtali Bloomberg við Má segir hann að bankinn sé að vinna í því að lækka vexti sína á meðan annars staðar fari þeir hækkandi. Samkvæmt greiningardeildinni er þetta annar tónn en hefur heyrst frá meðlimum peningastefnunefndar, en yfirlýsingar hennar upp á síðkastið hafi boðað nokkuð hlutlausa framsýna leiðsögn. Engu að síður hafi mátt lesa á milli línanna að a.m.k. hluti nefndarinnar sé í vaxtalækkunargír.
Kjarninn birti fyrir skömmu upp úr fundargerð peningastefnunefndar fyrir síðustu vaxtaákvörðun í júní, en þá voru stýrivextir lækkaðir um 0,25 prósentustig. Samkvæmt fundargerðinni vildu tveir nefndarmeðlimir ganga enn lengur og lækka stýrivexti um hálft prósentustig, meðal annars vegna gengisstyrkingu krónunnar og lágrar verðbólgu.
Samkvæmt greiningardeild Arion er „erfitt að túlka það öðruvísi en að frekari vaxtalækkanir séu í kortunum,“ eftir viðtal Bloomberg. Þar að auki benti Már á í viðtalinu að lægri vextir dragi úr hvata til vaxtamunarviðskipta og að þar með opnist svigrúm til þess að draga úr bindiskyldu á erlenda fjárfestingu, en tilgangur bindiskyldunnar er að draga úr slíkum viðskiptum.
Út frá nýrri langtímaverðbólguspá greiningardeildarinnar gerir hún ráð fyrir lækkun vaxta um 50 punkta það sem eftir lifir árs, en að vextir standi svo í stað í 4% árið 2018. Helstu rökin fyrir áframhaldandi vaxtalækkun séu fyrst og fremst stöðugar væntingar um verðbólgu og að hún haldist nálægt markmiði sínu.