Virði hlutabréfa í smásölurisanum Högum lækkaði um 7,24 prósent í 182 milljóna króna viðskiptum í Kauphöll Íslands í dag. Gengi bréfa félagsins var 36,5 krónur á hlut í lok dags. Hrun varð á verði bréfanna strax í fyrstu viðskiptum í morgun.
Markaðsvirði alls hlutafjár í Högum er nú 42,8 milljarðar króna en var 46,1 milljarður króna við opnun markaða. Félagið á hins vegar 1,64 prósent hlut í sjálfum sér að virði um 700 milljónir króna.
Hagar voru skráðir á markað síðla árs 2011. Síðan þá hefur gengi bréfa í félaginu margfaldast og það náði hámarki sínu 15. maí síðastliðinn þegar það var 55,85 krónur á hlut. Síðan þá, á tæpum þremur mánuðum, hafa hlutabréf í Högum lækkað um 35 prósent. Markaðsvirði félagsins hefur dregist saman um tæplega 23 milljarða króna á sama tímabili.
Ástæðan fyrir fallandi hlutabréfaverði Haga er afkomuviðvörun sem félagið sendi frá sér eftir lokun markaða á föstudag. Þar var greint frá því að bráðabirgðauppgjör fyrir júlímánuð sýndi að sölusamdráttur í magni og krónum átti sér áfram stað í júlí líkt og í júnímánuði. Í tilkynningunni sagði að ljóst sé „að breytt staða á markaði hefur mikil áhrif á félagið.“ Gera má ráð fyrir að EBITDA Haga, sem er skráð félag á markaði, verði um 20 prósent lægri fyrir tímabilið mars til ágúst 2017 en á sama tímabili í fyrra. Þetta er í annað sinn sem Hagar senda frá sér afkomuviðvörun á tveimur mánuðum. Sú fyrri var send út í byrjun júlí og var vegna þess að uppgjör fyrir júnímánuð sýndi umtalsverðan samdrátt milli ára. Sú breytta staða sem minnst er á í tilkynningunni er opnun á verslun Costco hérlendis, en hún opnaði síðla í maí. Markaðsvirði Haga hefur hríðfallið eftir að Costco opnaði í maí. Daginn áður en að Costco opnaði var markaðsvirði Haga 64,6 milljarðar króna.
Hagar eru stærsta smásölufyrirtæki á Íslandi. Það rekur meðal annars verslanir Bónus og Hagkaupa. Félagið, sem er skráð á markað og er að mestu í eigu íslenskra lífeyrissjóða, hefur reynt að bregðast við innkomu alþjóðlegra stórfyrirtækja, sérstaklega Costco og H&M, á íslenskan markað með ýmsum hætti. Á meðal þeirra aðgerða sem félagið greip til var að loka flestum tískuvöruverslunum sem það rak, fækka fermetrum sem það var með starfsemi sína á og með sameiningum, en Hagar samþykktu í fyrrahaust að kaupa Lyfju af íslenska ríkinu á 6,7 milljarða króna og í apríl síðastliðnum að kaupa Olís á 9,1 milljarð króna.
Samkeppniseftirlitið ógilti hins vegar samrunann við Lyfju nýverið en er með samrunann við Olís til meðferðar. Festi, sem rekur m.a. verslanir Krónunnar og er einnig með umtalsverða markaðshlutdeild á dagvörumarkaði, hefur einnig brugðist við innkomu alþjóðlegra fyrirtækja með því að loka verslunum, fækka fermetrum og með því að sameinast olíufélaginu N1. Sá samruni bíður einnig samþykkis Samkeppniseftirlitsins.