Jákvæðni gagnvart erlendum ferðamönnum ferð minnkandi milli ára, en á tveimur árum hefur hlutfall jákvæðra lækkað um fimmtung og hlutfall neikvæðra hækkað um þriðjung. Þetta kemur fram í nýbirtri könnun MMR.
Samkvæmt MMR voru 64,1% svarenda jákvæðir gagnvart erlendum ferðamönnum, á meðan 10,4% voru neikvæðir gagnvart þeim og 25,5% þeirra voru hvorki neikvæðir né jákvæðir. Hlutfall jákvæðra hefur farið lækkandi á síðustu tveimur árum samhliða hærra hlutfalli neikvæðra, en árið 2015 var viðhorf 80% Íslendinga jákvætt gagnvart erlendum ferðamönnum á meðan 7,5% voru neikvæðir gagnvart þeim. Niðurstöðurnar má sjá á mynd hér að neðan:
Frjálslyndir jákvæðari
Mikill munur var á viðhorfi gagnvart ferðamönnum eftir stjórnmálaskoðunum, en stuðningsmenn Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Viðreisnar mældust jákvæðastir í garð ferðamannanna. Hlutfall jákvæðra var minna meðal stuðningsmanna Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, en aðeins 47,6% Framsóknarmanna sögðust jákvæðir gagnvart erlendum ferðamönnum. Munur sást líka eftir búsetu, en viðhorf höfuðborgarbúa var jákvæðara en þeirra sem búa utan höfuðborgarsvæðisins.
Lítill munur var á aldursflokkum, en nokkuð sterk jákvæð fylgni var milli heimilistekna og jákvæðs viðhorfs gagnvart ferðamönnum. Einnig var munur milli kynja, en viðhorf karla gagnvart erlendum ferðamönnum var líklegra til að vera jákvætt en kvenna.
Spurt var: „Almennt séð, hversu jákvæð(ur) eða neikvæð(ur) ert þú gagnvart erlendum ferðamönnum á Íslandi?“ Alls svöruðu 909 einstaklingar könnuninni, en þeir voru allir valdir með slembivali úr hópi álitsgjafa MMR.