Stjórn félags ungra Framsóknarmanna í Reykjavík (SIGRÚN) hefur lýst yfir vantrausti á Sveinbjörgu Birnu Sveinbjörnsdóttir borgarfulltrúa Framsóknarflokks og Flugvallarvina. Ástæðan eru ummæli hennar um börn
hælisleitenda en hún sagði í nýlegu viðtali að skólaganga þeirra væri „sokkinn kostnaður“ fyrir Reykjavíkurborg.
Í yfirlýsingu félagsins segir að þær hugmyndir og sú stefna sem Sveinbjörg Birna tali fyrir gangi í berhögg við grunnstefnu Framsóknarflokksins. Þar segir enn fremur: „Hvað varðar meginstefnu borgarstjórnarflokks Framsóknar og Flugvallarvina. Að auka lóðaframboð, fjölga félagslegum íbúðum og gera námsgögn grunnskólanema gjaldfrjáls. Vill stjórn ungra Framsóknarmanna í Reykjavík, lýsa yfir fullum stuðningi við borgarstjórnarflokk Framsóknar og Flugvallarvina. Ungir Framsóknarmenn í Reykjavík vona að málflutningur Sveinbjargar Birnu, verði ekki til þess að varpa skugga á það mikilvæga og góða starf sem borgarstjórnarflokkurinn hefur unnið að öðru leyti.“
Félagið bætist í stóran hóp Framsóknarmanna sem hafa fordæmt ummæli Sveinbjargar Birnu en er með þeim fyrstu til að lýsa opinberlega vantrausti á hana. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði við RÚV í gær að ummæli Sveinbjargar Birnu væru óheppileg og klaufsk. Það eigi ekki að tala með þessum hætti um börn. Sigurður Ingi sagði að ummælin endurspegli ekki stefnu Framsóknarflokksins.
Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, sem er líka borgarfulltrúi flokksins í Reykjavík, og ungir Framsóknarmenn á landsvísu er einnig á meðal þeirra sem hafa fordæmt ummælin.
Sveinbjörg Birna fór í útvarpsviðtal á Útvarpi Sögu fyrir viku síðan og sagði þar að það fælist „sokkinn kostnaður“ í því fyrir Reykjavíkurborg að taka við börnum hælisleitenda í grunnskóla borgarinnar. Hún sagði að þeirri hugmynd hafi skotið upp hvort eðlilegt sé að börn hælisleitenda verði sett í sérstakan skóla þar til að ákvörðun liggi fyrir um hvort fjölskyldur þeirra fái dvalarleyfi eða ekki.