Greiningardeild Arion banka gerir ráð fyrir 5,3% hagvexti í ár, en hagvaxtarspár bankans voru 5,9% í mars. Stærsti þáttur lækkunarinnar eru vísbendingar um minni atvinnuvegafjárfestingu. Þetta kemur fram í uppfærðri hagvaxtarspá bankans, sem birt var í dag.
Í uppfærslunni kemur einnig fram yfirstandandi hagvaxtarskeið, sem staðið hefur yfir í sex ár muni standa í að minnsta kosti þrjú ár í viðbót. Einkaneyslan er sögð vera ein helsta driffjöður hagvaxtarins, studd áfram af litlu atvinnuleysi og kaupmáttaraukningu, en þjónustuútflutningur ferðaþjónustunnar leggi einnig hönd á plóg. Búist er við að hægja muni á vexti fjárfestingar á næstunni, þótt framlag hennar til hagvaxtar verði jákvætt til ársins 2020.
Minni afgangur, lægra gengi og hærri verðbólga
Greiningardeildin spáir minnkandi viðskiptaafgangi við útlönd á næstu tveimur árum, sökum vaxandi halla á vöruviðskiptum. Einnig er gert ráð fyrir að krónan muni styrkjast lítillega í náinni framtíð, en fari svo að veikjast um mitt ár 2018. Samhliða lækkandi viðskiptajöfnuði og gengisveikingu er búist við að verðbólga muni aukast á næstunni og fari yfir verðbólgumarkmið Seðlabankans. Þó muni hækkunin vera smávægileg þar sem hægari húsnæðisverðhækkanir vegi upp á móti lægra gengi.
Minna keypt af flugvélum
Hagvöxtur á fyrsta ársfjórðungi var 5% og nokkuð undir væntingar greiningadeildarinnar þar sem búist var við meiri vexti í utanríkisverslun og fjárfestingu. Þó gerði greiningardeildin ráð fyrir því í mars að hagvöxturinn myndi aukast eftir því sem leið og árið og verða 5,9% fyrir 2017. Út frá hagvaxtarvísum fyrir annan ársfjórðung hefur deildin hins vegar lækkað væntingar sínar niður í 5,3%, aðallega vegna vísbendingar um minni vöxt atvinnuvegafjárfestingar.
Í mars var búist við að atvinnuvegafjárfesting myndi vaxa um 19,7% á árinu, en nú er búist við að vöxturinn verði um 5,7%. Mestu muni um minni almenna atvinnuvegafjárfestingu og að flugvélar virðist frekar leigðar en keyptar.