Tillaga um að fara blandaða leið við val á lista Sjálfstæðisflokksins sem boðinn verður fram í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík á næsta ári var lögð fram fyrir stjórn Varðar, fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Í blandaðri leið felst að leiðtogi framboðslistann yrði kjörinn en að stillt yrði upp í önnur sæti á honum. Tillagan hefur ekki verið afgreidd. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu.
Þar er rætt við Gísla Kr. Björnsson, formann Varðar, sem að innan stjórnar Varðar væri vilji til þess að sæti á listanum myndu dreifast betur meðal hverfa borgarinnar. Það væri ákall innan hverfisfélaga Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík um að fólk úr viðkomandi hverfum myndi sitja á lista flokksins í borgarstjórnarkosningunum, sem fara fram í lok maí 2018.
Eftir síðustu kosningar var myndaður meirihluti í Reykjavíkurborg sem samansettur er af Samfylkingu, Bjartri framtíð, Vinstri grænum og Pírötum. Könnun Gallup fyrir Viðskiptablaðið, sem gerð var í byrjun júní síðastliðins, sýndi að hann myndi ekki verða í neinum vandræðum með að halda ef kosið hefði verið þá. Saman mældust flokkarnir með 61,4 prósent fylgi en fengu 61,7 prósent í kosningunum 2014. Valdahlutföll innan meirihlutans myndu þó eitthvað breytast. Samfylkingin myndi til að mynda fara úr 31,9 prósent fylgi í 22,3 prósent fylgi.
Sjálfstæðisflokkurinn mældist stærsti flokkurinn í borginni samkvæmt könnuninni með 26,8 prósent fylgi. Það er aðeins meira en flokkurinn fékk í kosningunum 2014, þegar 25,7 prósent borgarbúa kusu hann. Breytingin á fylginu er þó vel innan vikmarka könnunarinnar sem voru +/- 2,6 prósent. Raunar hefur fylgi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurborg haldist nokkuð stöðugt allt yfirstandandi kjörtímabil. Hann mældist með 25,3 prósent fylgi í desember 2014 og 23,4 prósent fylgi í september 2015. Halldór Halldórsson er núverandi oddviti flokksins í Reykjavík.