Gullleitarfyrirtækið Alopex Gold hefur í nógu að snúast þessa dagana, en fyrirhugaðar eru umfangsmiklar rannsóknir á tveimur svæðum á Grænlandi í ágúst og út september. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu fyrirtækisins sem kom út í gær.
Alopex Gold er gullleitarfyrirtæki stofnað af Eldi Ólafssyni, jarðfræðingi og fyrrverandi framkvæmdastjóra Orku Energy, en fyrirtækið var stofnað fyrr í ár og sérhæfir sig í gullleit á Grænlandi. Fyrirtækið var skráð á hlutabréfamarkaðinn í Toronto þann 13. júlí síðastliðinn og hefur markaðsvirði þess aukist um 11% síðan þá.
Alopex er handhafi þriggja námavinnsluleyfa á Grænlandi; í Tartoq, Nalunaq og Vagar, en fyrirtækið hyggst leggjast í umfangsmiklar rannsóknir á þeim öllum á næstu vikum.
Sýnataka er nú þegar hafin á Tartoq-svæðinu á vesturströnd Grænlandi, en talið er að þar gæti verið gullríkt svæði. Ef niðurstöður úr sýnatökunni eru jákvæðar þar verður borað eftir gullinu í kjölfarið.
Við Nanulaq-fjallið sunnar á vesturströnd Grænlands hefur fyrirtækið tvö námavinnsluleyfi, en talið er að kvarsæð liggi þar auk gullæðar með um 1,2 milljónir únsa af gulli. Námuvinnsla á svæðinu hefst þann 15. ágúst, en búist er við að henni ljúki í lok september. Fyrirtækið hefur gefið út tvö myndbönd sem útskýra fyrirhugaðar framkvæmdir í sumar.
Að verkefnunum loknum hyggst fyrirtækið senda sýnin til efnagreiningar í Írlandi, en í viðtali við Kjarnann segir Eldur að tækniskýrsla muni verða birt á markað í lok október eða byrjun nóvember.