Inga Sæland, formaður flokks fólksins, vísar á bug ásökunum um að hún etji saman hælisleitendum og öryrkjum. Hún segir gagnrýni sína á störf Útlendingastofnunar snúa að því að málsmeðferðartími hælisleitenda hérlendis sé allt of langur og að sú bið sé „klár mannvonska“ að hennar mati. Þetta kemur fram í viðtali við Ingu í DV í dag.
Þar segir að fyrir liggi að Íslendingar búi í fjölmenningarsamfélagi, enda séu 10,6 prósent íbúa þjóðarinnar af erlendu bergi brotin. Um sé að ræða frábært og duglegt fólk sem hafi hjálpað til við að byggja upp samfélagið.
Það sem hún hafi gagnrýnt sé að hér séu hælisleitendur látnir bíða í eitt til þrjú ár áður en þeir fá svar við umsóknum sínum og þá oftar en ekki sé þeim vísað úr landi. „Þessi bið er klár mannvonska að mínu mati. Mér blöskrar það þegar fjölskyldur með ung börn sem eru búnar að aðlagast samfélaginu og vinna hér baki brotnu, jafnvel farnar að tala íslensku, eru sendar úr landi.“
Inga telur aðferð Norðmanna, sem eru með í gildi reglu um að afgreiða mál hælisleitenda á 48 klukkutímum, mun manneskjulegri en þá leið sem farin hefur verið hérlendis. „Sú regla felur í raun í sér að þeim sem eiga ekki rétt á hæli er vísað tafarlaust úr landi. Þeir sem fá hæli fá hins vegar úrlausn sinna mála fljótt. „Ég á eftir að spyrja þessa háu herra sem eru að kalla mig öllum illum nöfnum: Vilja þeir hafa þetta einhvern veginn öðruvísi? Vill Logi Einarsson, minn fyrrverandi flokksbróðir, hafa þetta einhvern veginn öðruvísi? Þeir segja að ég sé að etja saman hælisleitendum og öryrkjum, það er ósatt, Það er einungis þannig sem þeir kjósa að túlka það sem ég segi, spurning hvaða stimpil þeir vilja setja á sjálfa sig. Fólki væri nær að snúa bökum saman um þær hugsjónir að útrýma hér fátækt en að reyna að ata okkur auri og snúa út úr málflutningi mínum.“
Flokkur fólksins mældist með 8,4 prósent fylgi í nýlegri könnun Gallup. Ef kosið yrði nú myndi flokkurinn fá fimm þingmenn. Flokkurinn fékk 3,5 prósent atkvæða í síðustu kosningum. Næst verður kosið árið 2020 nema að boðað verði til kosninga fyrir þann tíma.
Í viðtalinu við DV segir Inga að þótt flokkur hennar sé ekki inni á þingi sé hann að hennar mati öflugasta stjórnarandstaðan. „Það er orðið svo lítið um hugsjónir. Þegar fólk er komið í álnir er eins og leggist yfir það einhver hula og það virðist eiga erfitt með að stíga niður til okkar hinna og horfast í augu við raunverulega stöðu almennings í landinu, fólksins sem það á að vera að vinna fyrir.“
Sagðist sennilega Marine Le Pen týpa
Inga hefur vakið mikla athygli fyrir ýmis ummæli að undanförnu. Í byrjun ágúst sagði hún í samtali við fréttastofu RÚV að hún væri sátt við að vera kölluð popúlisti. „Ég hef ákveðið að taka jákvæða pólinn í hæðina og segja, ja popúlisti er bara svona einhver svakalega vinsæll. En ég veit náttúrulega hvað hugtakið er útbreitt fyrir. Ég er sennilega svona Marine Le Pen týpa sem er verið að mála mig af þeim sem munu hvort sem er aldrei kjósa flokkinn. Af okkur stafar ógn vegna þess að við erum boðberi breytinga. Við erum einlæg og heiðarleg og við vinnum af hugsjón og við ætlum að halda því áfram og við erum bara sátt við að vera popúlistar. Ég ætla að segja að það þýði bara það að vera vinsæll í dag.“
Marine Le Pen er fyrrverandi formaður frönsku Þjóðfylkingarinnar (f. Front National) og var forsetaframbjóðandi hennar fyrr á þessu ári. Þar náði hún í aðra umferð en tapaði fyrir Emmanuel Macron. Í kosningabaráttunni lagði Le Pen áherslu á að vilja takmarka fjölda innflytjenda sem Frakkland tæki á móti og sagðist ætla að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Frakklands í Evrópusambandinu.
Árangur Le Pen í seinni umferð forsetakosninganna var sá besti sem frambjóðandi flokks hennar hafði nokkru sinni náð – hún fékk um ellefu milljónir atkvæða – en olli samt sem áður vonbrigðum. Fylgi Marine Le Pen var mest í „ryðbelti“ Norður-Frakklands og hjá íhaldssömum og öldruðum íbúum í suðausturhluta landsins.
Inga vakti líka athygli fyrir grein sem hún skrifaði í Morgunblaðið í júní, í kjölfar þess að sérsveit lögreglunnar hafði verið vopnuð á nokkrum viðburðum sem haldnir voru í Reykjavík. Í greininni sagði hún að Íslendingar þyrftu að viðurkenna þá ógn sem fylgjendur öfga-íslams bera með sér. Að forðast þá umræðu væri hrein og klár og afneitun. „Sérsveit lögreglunnar undir alvæpni sýnir sig á almannafæri og það án þess að hættustig sé aukið opinberlega. Hvað vita þeir sem við vitum ekki? Hvers vegna vill enginn taka umræðuna um ástandið í Evrópu og þá staðreynd að Ísland tilheyrir henni, þótt enginn hafi verið sprengdur eða myrtur hér í hryðjuverkaárás enn sem komið er? „Það er kominn tími til að taka umræðuna og löngu kominn tími til að taka á árásum þeirra samlanda okkar sem vilja og munu kalla okkur öllum illum nöfnum. Þeirra sömu og vilja breiða út faðminn og bjarga öllum heiminum.“ Mikilvægt væri að fella sig ekki á bak við „rétttrúnaðarkenningar“ og treysta því að hryðjuverkaógnin komi ekki til Íslands.