Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Viðreisnar, segist vona að samningar við Evrópusambandið um niðurfellingu á tollum á landbúnaðarvörur geti tekið gildi um mitt ár 2018. Hann telur samninganna ekki stangast á við búvörusamninga, sem undirritaðir voru í fyrra og gilda til tíu ára, þar sem víða annars staðar sé stuðningur við landbúnað. Benedikt telur þó að sá stuðningur sé óvíða jafn vitlaus og hérlendis. Þetta kemur fram á vef RÚV.
Umræddir samningar voru gerðir í september 2015, þegar Sigurður Ingi Jóhannsson, nú formaður Framsóknarflokksins, var sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Í yfirlýsingu sem send var út vegna þeirra kom fram að þeir myndu stuðla að auknu vöruúrvali og lægra vöruverði á Íslandi til hagsbóta fyrir neytendur. Jafnframt áttu þeir að fela í sér veruleg ný tækifæri fyrir útflytjendur.
Áttu að taka gildi um síðustu áramót
Vonir stóðu til að samningarnir geti tekið gildi í árslok 2016 eða byrjun árs 2017, að fenginni staðfestingu stofnana ESB og Íslands. Sú gildistaka hefur hins vegar tafist mjög.
Samningarnir fela í sér að Ísland fellir niður tolla á yfir 340 nýjum tollskrárnúmerum og lækkar tolla á yfir 20 öðrum. Almennt gerir ESB slíkt hið sama. Samtök verslunar og þjónustu lýstu því yfir í framhaldi af gerð samninganna að sú tala væri ónákvæm, því 244 af tollskrárnúmerunum bæru engan toll.
Jafnframt er samkomulag um að báðir aðilar auki verulega tollfrjálsra innflutningskvóta m.a. fyrir ýmsar kjöttegundir og osta sem munu koma til framkvæmda á tilteknum aðlögunartíma. Á móti fær Ísland verulega hækkun tollfrjálsra innflutningskvóta fyrir skyr, smjör og lambakjöt auk nýrra kvóta fyrir alifugla- og svínakjöt og ost.
Þá var gerður samningur milli Íslands og Evrópusambandsins um gagnkvæma viðurkenningu á heitum afurða sem vísa til uppruna. Í meginatriðum felur samningurinn í sér að íslensk stjórnvöld skuldbinda sig til að vernda á yfirráðasvæði sínu heiti afurða sem vísa til uppruna og njóta verndar innan ESB.
Stuðningur við bændur „óvíða jafn vitlaus eins og hér“
Benedikt segir að eftir því sem hann komist næst þá sé talið að samningurinn verði samþykktur fyrir áramót og taki þá gildi um mitt ár 2018. Það verði mjög stórt mál fyrir neytendur.
Hann segir að samningarnir stangist ekki á við afar umdeilda búvörusamninga, sem voru undirritaðir í febrúar í fyrra og eru til tíu ára. Samningarnir voru samþykktir á Alþingi í fyrrahaust. Kostnaður ríkissjóðs vegna þeirra er 13-14 milljarðar króna á ári.
Einungis 19 þingmenn, eða 30 prósent allra þingmanna, greiddu atkvæði með búvörusamningunum þegar þeir voru samþykktir á Alþingi á í september. Sjö sögðu nei en aðrir sátu hjá eða voru ekki viðstaddir atkvæðagreiðsluna.
Benedikt segir að á það hafi verið bent að víða sé stuðningur við landbúnað. „En hann er kannski óvíða jafn vitlaus eins og hér, þar sem er hvatt til offramleiðslu. Það er alveg hægt að hugsa sér stuðning við bændur sem er ekki framleiðslutengdur.“