Fóstureyðingar eru ekki frjálsar í ellefu Evrópuríkjum, þar á meðal á Íslandi, samkvæmt frétt SVT sem birt var í dag. Lög um fóstureyðingar hér á landi hafa staðið í meginatriðum óbreytt frá setningu þeirra árið 1975, en bæði núverandi og fyrrverandi heilbrigðisráðherra hafa lýst yfir vilja sínum til að breyta þeim.
Ellefu ríki
Samkvæmt umfjöllun SVT er fóstureyðingalöggjöf á Íslandi svipuð þeirri á Kýpur, Finnlandi og Bretlandi, en þar eru fóstureyðingar heimilar svo lengi sem rökstuðningur liggur fyrir um að félagslegar aðstæður liggi að baki henni. Íslensku lögin voru sett árið 1975, en samkvæmt þeim þurfa tveir utanaðkomandi fagaðilar að rökstyðja fóstureyðingu.
Strangari reglur gilda um fóstureyðingar í Póllandi, Mónakó, Liechtenstein og Norður-Írlandi, en þar eru fóstureyðingar eingöngu leyfðar af heilsufarslegum ástæðum. Á Möltu og Írlandi auk smáríkjanna San Marínó, Liechtenstein og í Vatíkaninu eru svo fóstureyðingar alveg bannaðar nema ef líf konunnar er í hættu.
Í frétt SVT er einnig farið yfir refsiaðgerðir vegna fóstureyðinganna í löndunum, en kona getur búist við eins og hálfs til þriggja ára fangelsi í Möltu fari hún í fóstureyðingu. Á Írlandi getur fóstureyðing leitt til allt að 14 ára fangelsisdóms, en þar getur heilbrigðisstarfsfólk einnig gerst brotlegt framkvæmi það fóstureyðingu.
Tveggja ára umræða
Í desember 2015 sagðist Kristján Þór Júlíusson, þáverandi heilbrigðisráðherra, munu endurskoða löggjöf um fóstureyðingar í þá átt að konur hafi ákvörðunarvald yfir eigin málum. Ummæli ráðherra komu í kjölfar greinar sem birt var í Læknablaðinu, en í henni var þrýst á endurmat á löggjöfinni þar sem tími væri til kominn að láta hana endurspegla viðhorf nútímans.
Þrátt fyrir ummæli heilbrigðisráðherra hafa fóstureyðingalögin ekki tekið neinum efnislegum breytingum frá upphafi, enn þarf rökstuðning utanaðkomandi fagaðila um félagslegar aðstæður fóstureyðingar til þess að hún sé heimil.
Fyrr á þessu ári var svo birt skýrsla um endurskoðun fóstureyðingalaganna í velferðarráðuneytinu. Þar var lagt til að ákvæði um rökstuðning tveggja fagaðila yrði afnumið, auk þess að fjallað yrði um fóstureyðingar sem þungunarrof. Í kjölfar birtingarinnar sagði Óttar Proppé heilbrigðisráðherra tillögurnar verða grundvöll frumvarps að nýrri löggjöf um þessi mál. Umrætt frumvarp hefur þó ekki verið enn lagt fram á þingi.