Sarah Palin, fyrrverandi ríkisstjóri Alaska, fordæmir stefnu Íslands gagnvart skimun og þungunarrofi fóstra með Downs-heilkenni. Palin segir aðferðina ranga og illgjarna og líkir henni við Þýskalandi nasismans. Þetta kemur fram í frétt á Fox News í dag.
„Að reyna að murka út líf í nafni þess að skapa fullkomin kynþátt… tilheyrir Þýskalandi nasismans,“ sagði Palin í samtali við stöðina, en níu ára sonur hennar, Tig, er með Downs-heilkenni.
Viðtal við Palin má sjá í myndbandi hér að neðan, en í því spyr fréttamaður Fox News Palin um viðbrögð hennar við því að Ísland sé að „draga úr“ börnum eins og hennar í samfélaginu.
Ummæli Palin eru vegna umfjöllunar CBS um háa tíðni fóstureyðinga vegna Downs-heilkennis-greiningar í móðurkviði. Samkvæmt umfjölluninni er nær 100% fóstra eytt sem greinast með heilkennið hér á landi. Hlutfallið er svipað í Danmörku og Bretlandi en mun lægra í Bandaríkjunum þar sem einungis 67% fóstra er eytt í kjölfar greiningar.
Lífið er grátt
í umfjöllun CBS er rætt við Kára Stefánsson, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, en hann segist vera efins um ágæti fóstureyðinga vegna Downs-heilkennis-greiningar. „Mér finnst ekkert að því að sækjast eftir því að eiga heilbrigð börn, en hversu langt við ættum að ganga í þá átt er flókin ákvörðun.“
Einnig var tekið viðtal við Helgu Sól Ólafsdóttur, félagsráðgjafa við Landspítalann og lektor við Háskóla Íslands. Helga bendir á rétt kvenna yfir eigin framtíð og segir Íslendinga ekki líta á fóstureyðingu sem morð. „[með fóstureyðingu]…endum við mögulegt líf sem gæti haft mikla erfiðleika í för með sér…og komum í veg fyrir þjáningu barns og fjölskyldunnar. Og mér finnst sú nálgun vera réttari en að líta á þetta sem morð, það er svo afdráttarlaust. Lífið er ekki svart eða hvítt, lífið er grátt.“