41 dagur leið milli ríkisstjórnarfunda í sumar, en það er lengsta sumarfrí sem ríkisstjórnin hefur tekið í tólf ár. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Í fréttinni er lengd sumarfría ríkisstjórnarinnar birt tíu ár aftur í tímann, en þau hafa lengst verulega frá árinu 2009, þegar fundað var vikulega yfir sumarið. Þar til nú átti Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar met síðustu ára með 37 daga sumarfrí árið 2015, en Árni Páll Árnason, þáverandi formaður Samfylkingarinnar, sagði fríið hafa verið það lengsta í Íslandssögunni.
Erfitt er að sannreyna orð Árna, þar sem rafræn skjalaskráning nær einungis til ársins 2006. fundargerðir á árunum 2000-2006 voru ritaðar á tölvu en einungis varðveittar á pappír. Áratugina á undan voru þær svo handskrifaðar. Fréttablaðið staðfestir þó að ekki sé til dæmi um lengra frí ríkisstjórnarinnar frá árinu 2006.
Á mynd hér að ofan sjást fundarhlé ríkisstjórnarinnar yfir sumartímann. Árin 2009 og 2010 var fundað með u.þ.b. viku millibili, en sumarfríið tók að lengjast verulega eftir árið 2013.
Langt sumarfrí ríkisstjórnarinnar kemur eftir óvenju stutt þing, en það var sett þann 6. desember síðastliðinn. Starfstíð ríkisstjórnarinnar hefur verið enn styttri, en stjórnin var ekki mynduð fyrr en 11. janúar. Frá þingsetningu til þingfrestunnar fengu þingmenn einnig 53 daga í jóla-og páskafrí.