Kjartan Magnússon og Áslaug Friðriksdóttir, sitjandi borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, hafa bæði áhuga á að leiða lista flokksins í borgarstjórnarkosningunum á næsta ári. Þetta kemur fram á mbl.is. Þar er einnig haft eftir Áslaugu að hún sé ekki hrifin af hugmynd um leiðtogaprófkjör en það fer fram með þeim hætti að oddviti listans er kjörinn en síðan muni uppstillingarnefnd stilla upp í önnur sæti listans.
Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokks í Reykjavík, mun ekki bjóða sig fram í borgarstjórnarkosningunum í vor. Hann greindi frá þessu í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöld. Halldór vildi ekki gefa upp hvern hann styddi sem næsta oddvita.
Greint var frá því í síðustu viku að Borgar Þór Einarsson, aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra, væri að íhuga að bjóða sig fram í leiðtogasæti á lista Sjálfstæðisflokks í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningarnar.
Í frétt Fréttablaðsins, þar sem sá áhugi kom fram, sagði einnig að Svanhildur Hólm Valsdóttir, aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra, væri orðuð við framboð en hún baðst undan viðtali við blaðið um málið.
Greint var frá því í fjölmiðlum í síðustu viku að tillaga um að fara blandaða leið við val á lista Sjálfstæðisflokksins sem boðinn verður fram í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík á næsta ári hafi verið lögð fram fyrir stjórn Varðar, fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, á fundi í vikunni. Í blandaðri leið felst að leiðtogi framboðslistann yrði kjörinn en að stillt yrði upp í önnur sæti á honum. Tillagan hefur ekki verið afgreidd.
Í Morgunblaðinu var rætt við Gísla Kr. Björnsson, formann Varðar, sem sagði að innan stjórnar Varðar væri vilji til þess að sæti á listanum myndu dreifast betur meðal hverfa borgarinnar. Það væri ákall innan hverfisfélaga Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík um að fólk úr viðkomandi hverfum myndi sitja á lista flokksins í borgarstjórnarkosningunum, sem fara fram í lok maí 2018.
Ólga innan flokksins
Heimildir Kjarnans herma að töluverð ólga sé innan Sjálfstæðisflokksins vegna málsins. Boðað hafi verið til fundarins hjá Verði án þess að dagskrá hefði verið send út. Margt þungavigtarfólk innan flokksins er andsnúið því að kosið verði sérstaklega um leiðtoga en raðað í önnur sæti. Fulltrúaráðsfundur mun fara fram 22. ágúst næstkomandi og er búist við því að það verði átakafundur.
Eftir síðustu kosningar var myndaður meirihluti í Reykjavíkurborg sem samansettur er af Samfylkingu, Bjartri framtíð, Vinstri grænum og Pírötum. Könnun Gallup fyrir Viðskiptablaðið, sem gerð var í byrjun júní síðastliðins, sýndi að hann myndi ekki verða í neinum vandræðum með að halda ef kosið hefði verið þá. Saman mældust flokkarnir með 61,4 prósent fylgi en fengu 61,7 prósent í kosningunum 2014. Valdahlutföll innan meirihlutans myndu þó eitthvað breytast. Samfylkingin myndi til að mynda fara úr 31,9 prósent fylgi í 22,3 prósent fylgi.