Uppi eru hugmyndir innan Samfylkingar um nýtt nafn á stjórnmálaflokknum. Samkvæmt meðlimi Samfylkingarinnar er fyrirhuguð nafnabreyting hluti af endurskipulagningu flokksins eftir slæma niðurstöðu síðustu kosninga.
Eva H. Baldursdóttir, varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar og lögmaður hjá Fjármálaráðuneytinu, bað um nýjar tillögur að nafni stjórnmálaflokksins á Facebook-síðu sinni í dag. Upp hafa komið nokkrar tillögur á þræðinum, þar á meðal Jafnaðarmannaflokkur Íslands.
Í samtali við Kjarnann segir Eva nafnabreytinguna vera hluti af endurskipulagningu flokksins eftir niðurstöðu síðustu kosninga. Hugleiðingar um nafnabreytingu hafi verið í gangi í nokkurn tíma, en til stendur að leggja fram tillögu á næsta landsþingi flokksins í október.
Samfylkingin fékk 5,7% atkvæða í síðustu Alþingiskosningum í fyrra, samanborið við 12,9% árið 2013 og 29,8% árið 2009. Í kjölfar niðurstaðna kosninganna sagði Oddný G. Harðardóttir af sér sem formaður flokksins og Logi Einarsson tók við embættinu.
Fylgi flokksins hefur aukist nokkuð eftir kosningar, ef marka má skoðanakannanir undanfarna mánuði. Í síðasta þjóðarpúlsi Gallup mældist hann í 9,2% og í síðustu MMR-könnun mældist hann í 10,6%.