Alls fá 18.660 einstaklingar greiddan örorkulífeyri. Þar af eru 43% þeirra með varanlegt örorkumat og 57% þeirra með tímabundið örorkumat. Þetta kemur fram í svari við fyrirspurn Guðrúnar Ágústu Þórdísardóttur, þingmanni Pírata,á Alþingi.
Guðrún Ágústa lagði fram fyrirspurn til Þorsteins Víglundssonar, félags-og jafnréttismálaráðherra, um fjölda öryrkja og endurmat örorku. Þar spurði hún meðal annars um fjölda einstaklinga með ólæknandi sjúkdóm og hversu margir þeirra séu undir 18 ára aldri.
Í svari ráðherra kom fram að slíkt sé ekki skráð meðal fullorðinna, en 18.660 einstaklingar fái hins vegar greiddan örorkulífeyri 1.937 börn séu með alvarlega sjúkdóma og/eða fötlun. Af þeim 18.660 örorkulífeyrisþega á Íslandi séu 43% með varanlegt örorkumat og um 57% með tímabundið örorkumat. Algengast sé að þeir sem fái metna tímabundna örorku þurfi að koma í endurmat fjórum sinnum.
Samkvæmt tölum Hagstofunnar var mannfjöldi Íslands á öðrum ársfjórðungi í ár 343.960, því eru örorkulífeyrisþegar 5,4% allra Íslendinga.
Guðrún Ágústa spurði einnig hversu mörgum einstaklingum væri synjað árlega um endurmat, þrátt fyrir að öll tilskilin gögn séu til staðar, en samkvæmt ráðherranum var fjöldi þeirra 14 í fyrra auk þess sem 128 óskuðu ekki endurmats. Til samanburðar hafi 48 einstaklingum verið synjað og 103 ekki óskað endurmats örorku árið 2015.