Í umfjöllun stærsta dagblaðs Bandaríkjanna, Wall Street Journal, segir í umfjöllun um stöðu efnahagsmála á Íslandi, að uppgangur ferðaþjónustunnar í landinu hafi bjargað efnahag landsins eftir fjármálakreppuna en nú sé greinin orðinn „höfuðverkur“ í efnahagslegu tilliti.
Mikilli innspýtingu gjaldeyris með ferðamönnum hafi fylgt ris krónunnar og verðlag í landinu sé nú orðið verulega hátt, í alþjóðlegum samanburði. Will Weiner, bandarískur ferðamaður, segist hafa fundið fyrir því að kaffibollinn að uppáhelltu kaffi væri dýr, eða um 5 Bandaríkjadalir, eða sem nemur 530 krónum.
Uppgangur ferðaþjónustunnar hefur verið ævintýri líkastur á undanförnum árum og gerði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hann að umtalsefni í bloggskrifum á dögunum. Reiknað er með því að ríflega 2,2 milljónir ferðamanna heimsæki landið á þessu ári, eða jafnvel meira, en þeir voru 1,8 milljónir í fyrra.
Tölur hafa þó sýnt að erlendir ferðamenn eyða ekki eins miklu og þeir gerðu áður, og hefur kortaveltan ekki aukist í hlutfalli við fjölgun ferðamanna.
Í grein WSJ segir að þessi mikli vöxtur ferðaþjónustunnar hafi breytt miklu í íslenska efnahagslínu, og að sterkt gengi krónunnar hafi gert mörgum öðrum atvinnugreinum erfitt fyrir. Allt önnur staða sé þó uppi núna en árið 2008, þar sem efnahagsbólan á þeim tíma var blásin út með lánsfé og ofvexti bankakerfinsins.