Starfshópur um stefnumótun í fiskeldismálum leggur meðal annars til, í skýrslu sinni, að rekstrarleyfishafar í sjókvíaeldi greiði afgjald vegna nýtingar á eldissvæðum í sjó, og auðlindagjald sem miðað verði við framleiðslumagn eldisfisks í sjó, allt að 15 krónur á hvert framleitt kíló af eldislaxi. Lagt er til að 85% auðlindagjaldsins renni til uppbyggingar á þeim svæðum sem nýtist við uppbyggingu fiskeldis, en 15% gjaldsins renni þá í Umhverfissjóð sjókvíaeldis, til að efla rannsóknir í fiskeldi.
Fyrirtækin fái þá sex ára biðtíma á greiðslu auðlindagjalds, og verður það talið frá þeim tíma þegar fyrsta slátrun hefst úr eldiskvíum fyrirtækisins. Eldi ófrjórra laxa verði enn fremur tímabundið undanþegið greiðslu auðlindagjalds og 50% afsláttur settur á greiðslu gjaldsins vegna eldis regnbogasilungs.
Í starfshópnum voru Baldur P. Erlingsson, lögfræðingur hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og Bryndís Björnsdóttir, sérfræðingur hjá Matís, bæði skipuð án tilnefningar, Guðmundur Gíslason, stjórnarformaður Fiskeldis Austfjarða, og Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður Arnarlax, báðir tilnefndir af Landssambandi fiskeldisfyrirtækja, Óðinn Sigþórsson, fyrrverandi formaður Landssambands veiðifélaga, tilnefndur af Landssambandi veiðifélaga, og Sigurbjörg Sæmundsdóttir, deildarstjóri hjá umhverfis- og auðlindaráðuneyti, tilnefnd af umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Með starfshópnum starfaði dr. Jón Þrándur Stefánsson.
Í tilkynningu á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins segir að starfshópurinn telji mikilvægt að fiskeldi á Íslandi verði skapaðar aðstæður sem eru góðar til uppbyggingar. „Starfshópurinn telur mikilvægt að íslensku fiskeldi séu sköpuð bestu möguleg skilyrði til uppbyggingar og verði þannig sterk og öflug atvinnugrein. Með hagfelldum rekstrarskilyrðum megi byggja upp fiskeldi á svæðum sem henta til slíks rekstrar og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu. Að sama skapi telur starfshópurinn mikilvægt að stuðla að ábyrgu fiskeldi þar sem sjálfbær þróun og vernd lífríkis séu höfð að leiðarljósi. Einungis þannig muni nást sátt um framtíðaruppbyggingu fiskeldis. Starfshópurinn bendir á að slík sátt helstu hagsmunaaðila sé ekki einungis nauðsynleg fyrir uppbyggingu fiskeldis heldur skapi slík sátt markaðsleg sóknarfæri fyrir íslenskt fiskeldi til framtíðar, þar sem byggt er á umhverfisvænni ímynd. Því skuli rannsóknir ráða för við uppbyggingu fiskeldis - og í þeim tilfellum þar sem óvissa ríki um áhrif fiskeldis á vistkerfi eða umhverfi verði niðurstöður rannsókna lagðar til grundvallar ákvörðunum stjórnvalda,“ segir í tilkynningunni.
Í skýrslu starfshópsins koma meðal annars fram upplýsingar um eignarhald á fiskeldisfyrirtækjunum sem starfa hér á landi, en það er að stóru leyti hjá erlendum aðilum.