Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist nú 24,5 prósent og lækkar um 4,8 prósentustig frá síðasta mánuði. Stuðningur við ríkisstjórnina hríðlækkar milli júlí og ágústmánaða og mælist nú 27,7 prósent. Það er minnsti stuðningur sem mælst hefur við sitjandi ríkisstjórn og svipaður stuðningur og mældist við ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í apríl 2016, þegar Wintris-málið var í hámæli. Þá mældist sú ríkisstjórn með 26 prósent stuðning. Þetta kemur fram í nýbirtri könnun MMR.
Fylgi flokka miðað við könnun MMR 18. ágúst
Sjálfstæðisflokkurinn mælist enn stærsti flokkur landsins með 24,5 prósent fylgi. Flokkurinn mældist með 29,3 prósent fylgi í könnun MMR í júlí. Vinstri græn eru næst stærsti flokkur landsins með 20,5 prósent fylgi sem er nánast sama fylgi og flokkurinn mældist með í júlí. Píratar koma þar á eftrir með 13,5 prósent fylgi en mældust með 13,3 prósent í júlí. Þar á eftir kemur Samfylkingin með 10,6 prósent fylgi og Framsóknarflokkur með 10,1 prósent fylgi.
Flokkur fólksins, undir forystu Ingu Sæland, mælist með 6,7 prósent fylgi sem er lítið eitt meira en hann mældist með í júlí. Flokkurinn mælist með meira fylgi en báðir litlu stjórnarflokkarnir, Viðreisn og Björt framtíð. Sá fyrrnefndi mælist með sex prósent fylgi og sá síðarnefndi með 3,6 prósent, sem myndi ekki duga til að ná manni inn á þing ef kosið yrði í dag. Fylgi beggja mælist þó, þrátt fyrir það, umtalsvert hærra en það gerði í júlí. Þá mældist fylgi Viðreisnar 4,7 prósent og fylgi Bjartrar framtíðar var 2,4 prósent.
Íslenska þjóðfylkingin mælist með 1,6 prósent fylgi, Dögun með 1,4 prósent og aðrir með 1,6 prósent.