Lilja Dögg Alfreðsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og varaformaður hans, gagnrýnir skipan á starfshópi sem falið hefur verið að endurskoða lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, lög um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi auk ákvæða annarra laga um fjármálamarkaði eða fjármálafyrirtæki, ef þau tengjast eftirliti með markaðnum.
Lilja segir á Facebook síðu sinni, að skipan hópsins sé ekki til þess fallin að breyta, bæta eða hagræða á svæði eftirlits með fjármálakerfinu. „Fjármála- og efnahagsráðherra virðist vera duglegur að lesa nýlegt efni frá mér og í dag skipaði hann starfshóp um endurskoðun laga vegna opinbers eftirlits með fjármálastarfsemi. Það er gott og vel en það vekur hins vegar furðu að hópurinn er eingöngu skipaður fulltrúum fjármála- og efnahagsráðuneytisins, fyrir utan formanninn. Til að árangur og umbætur náist í svona mikilvægari vinnu, þarf víðtæka samvinnu og samráð til að samstaða sé um þær breytingar. Það er ljóst af þeim þröngu tímamörkum sem hópnum er ætlað að lítill vilji er hjá ráðherra að breyta, bæta og hagræða á þessu sviði,“ segir Lilja á Facebook síðu sinni.
Markmiðið með starfi hópsins er að hlutverk, staða og verkefni Fjármálaeftirlitsins verði sett fram með skýrari hætti í lögum en nú er líkt og kveðið er á um í fjármálaáætlun fyrir 2018-2022, segir í tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
Er starfshópnum meðal annars falið að skoða sérstaklega niðurstöður sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) frá í vor þar sem fjallað er um nauðsyn þess að efla eftirlit á fjármálamarkaði hér á landi og að skipulag eftirlits markaðarins verði tekið tekið gagngerrar endurskoðunar. AGS gagnrýndi FME harðlega í umsögn sinni, og sagði að nauðsynlegt væri að styrkja eftirlit með fjármálakerfinu á Íslandi.
Starfshópnum er falið að vinna drög að lagafrumvarpi, ásamt skilagrein, og leggja fyrir ráðherra eigi síðar en 15. desember næstkomandi.
Starfshópinn skipa Jóhannes Karl Sveinsson hrl., formaður, Guðbjörg Eva Baldursdóttir, lögfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneyti, Haraldur Steinþórsson, lögfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneyti, Leifur Arnkell Skarphéðinsson, lögfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneyti, og Tinna Finnbogadóttir, hagfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneyti. Erindisbréf starfshópsins má lesa hér.
Lilja segir enn fremur að mikilvægt sé að samræma og sameina eftirlit á einum stað, til að auka yfirsýn og skerpa á eftirlitshlutverkinu. „Í þessari endurskoðun á lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi á að líta til þess að sameina eftirlit með fjármálastofnunum. Veigamikil rök hníga í þá átt. Í fyrsta lagi mun það auka heildarsýn á helstu áhættuþætti fjármálakerfisins að sameina krafta Fjármálaeftirlits og Seðlabanka Íslands. Í öðru lagi með því að sameina eftirlit með lausafjárstöðu viðskiptabanka og eiginfjárstöðu þeirra, þá verður framkvæmd fjármálaeftirlits skýrari og auðveldara fyrir lánveitanda til þrautavara að bregðast við með skilvirkari hætti. Í þriðja lagi mun takast betur að viðhalda peningalegum og fjármálalegum stöðugleika í hagkerfinu með því að stýritæki þjóðhagsvarúðarstefnu séu hjá einum aðila. Í fjórða lagi, þá mun mannauður nýtast betur og upplýsingaskipti verða greiðari með þessu fyrirkomulagi. Þekkingargrunnur sameinaðs eftirlits verður fjölbreyttari og þar af leiðandi meiri slagkraftur,“ segir Lilja.