Daði Már Kristófersson, forseti Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands og ráðgjafi nefndar sem á að móta nýjar tillögur um fyrirkomulag auðlindagjalds í sjávarútvegi, segir að sér finnist hugmyndir manna „um umfang rentu í sjávarútvegi á Íslandi oft vera skringilega bjartsýnar.“ Veiðigjöld verði aldrei neinn meiriháttar tekjustofn fyrir ríkissjóð og muni aldrei leysa af hólmi tekjuskatta. Menn hafi því að einhverju leyti séð „töluverðum ofsjónum yfir hagnaði í sjávarútvegi.“
Þetta kemur fram í viðtali við Daða Má, sem er prófessor og auðlindahagfræðingur, í Fiskifréttum í dag.
Í viðtalinu segir Daði að enginn vafi leiki á því að kvótakerfið hafi skilað Íslendingum árangri. Mjög áreiðanleg tölfræði sé til um það og í dag sé enginn sjávarútvegur í heimunum betri í að skapa verðmæti úr hráefni en íslenskur sjávarútvegur. „Það er ekki þar með sagt að við séum komin á einhverja endastöð eða hann sé fullkominn, það er svo fjarri lagi. En það er samt ljóst að kerfið hefur hjálpað í þeirri þróun[...]En nú skal ég vera hreinskilinn með það að ég er mikill stuðningsmaður kvótakerfisins, þó það sé alls ekki gallalaust[...]Ef það þarf að velja á milli þess að vera með annað hvort óarðbærar veiðar eins og til dæmis Norðmenn eða Evrópusambandið stunda eða stjórnlausar veiðar eins og er víða í heiminum, og þess að þurfa að sætta sig við þessa takmörkun sem fylgir kvótafyrirkomulaginu, þá er enginn vafi í mínum huga að þetta er langsamlega besta fyrirkomulagið,“ segir Daði við Fiskifréttir.
Þar segist hann einnig alltaf verða hissa þegar menn fari að agnúast út í arðgreiðslur til eigenda sjávarútvegsfyrirtækja. „Það er nú einu sinni þannig að ef þú ætlar að fjárfesta í atvinnurekstri þá gerirðu það ekki án þess að ætlast til þess að fá eitthvað í þinn hlut. Og mér finnst að menn þurfi þá að skoða hvort þessar arðgreiðslur eru meiri eða minni en eðlilegt er fyrir atvinnurekstur með sambærilega áhættu, frekar en að bera þær alltaf saman við veiðigjaldið. Ef þú getur sýnt fram á að arðgreiðslurnar séu alveg út úr korti miðað við bundið fjármagn, þá geta menn farið að tala saman.“
Góð tíð hjá sjávarútvegi eftir hrun
Eigið fé íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja var rúmlega 220 milljarðar króna í lok árs 2015. Það var neikvætt um 80 milljarða króna í lok árs 2008 og jókst því um rúmlega 300 milljarða króna frá þeim tíma. Þá á eftir að taka tillit til þeirra 54,3 milljarða króna sem eigendur sjávarútvegsfyrirtækja hafa greitt sér út í arð frá byrjun árs 2010 og til loka árs 2015, enda hafa þeir peningar verið greiddir út úr sjávarútvegsfyrirtækjunum til eigenda þeirra. Alls voru 38,2 milljarðar króna greiddir í arð árin 2013, 2014 og 2015.
Þegar sú upphæð er lögð saman við eigið féð hefur hagur sjávarútvegarins vænkast um rúmlega 354 milljarða króna á örfáum árum. Upplýsingarnar um eigið fé sjávarútvegarins, bæði veiða og vinnslu, koma fram í hagtíðindum Hagstofu Íslands um hag veiða og vinnslu árið 2015.
Veiðigjald útgerðarinnar fór úr 9,2 milljörðum fiskveiðiárið 2013/2014 í 7,7 milljarða fiskveiðiárið 2014/2015. Í reikningum fyrirtækjanna er veiðigjaldið talið með öðrum rekstrarkostnaði og því er búið að taka tillit til þess þegar hreinn hagnaður er reiknaður út. Á fiskveiðiárinu 2015/2016 voru þau áætluð 7,4 milljarðar króna og á yfirstandandi fiskveiðiári er það áætlað 4,8 milljarðar króna. Það er um átta milljörðum króna minna en þau voru fiskveiðiárið 2012/2013, þegar þau voru 12,8 milljarðar króna. Veiðigjöldin sem sjávarútvegsfyrirtæki greiða til ríkissjóðs hafa því lækkað um átta milljarða króna á sama tíma og fyrirtækin hafa hagnast mikið.
Nefnd skipuð um sanngjarna gjaldtöku
Í maí var gengið frá skipun nefndar til að móta tillögur um hvernig tryggja megi sanngjarna gjaldtöku fyrir afnot af fiskveiðiauðlindinni. Formaður nefndarinnar er Þorsteinn Pálsson sem skipaður er af Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Aðrir sem sitja í nefndinni eru Hanna Katrín Friðriksson (fyrir Viðreisn), Logi Einarsson (fyrir Samfylkingu), Mörður Ingólfsson (fyrir Pírata), Páll Pálsson (fyrir Framsóknarflokk), Svandís Svavarsdóttir (fyrir Vinstri græn), Teitur Björn Einarsson (fyrir Sjálfstæðisflokk) og Theodóra S. Þorsteinsdóttir (fyrir Bjarta framtíð). Daði er síðan, líkt og áður sagði, einn þeirra sem starfar sem ráðgjafi nefndarinnar.
Nefndin á að skila tillögum sínum til ráðherra í formi lagafrumvarps eigi síðar en 1. desember á þessu ári.