Fimm af hverjum hundrað ferðamönnum hér á landi fara aldrei út úr Leifsstöð, 6% fer út fyrir flugvallarsvæðið en gistir ekki yfir nótt og 3% ferðamannanna eru útlendingar sem búsettir eru hér á landi.
Þetta sýna niðurstöður könnunar Isavia og Ferðamálastofu sem framkvæmd var nýverið í kjölfar umræðu sem skapaðist í kringum umfjöllun Túrista í vor um hugsanlegt ofmat á ferðamannafjöldanum. Það er vefurinn Túristi.is sem greinir frá könnuninni á vef sínum. „Sú tilgáta byggði á því að farþegar sem aðeins skipta um flugfélag á Keflavíkurflugvelli eru taldir sem ferðamenn í talningu Ferðamálastofu, en vísbendingar eru um að þessum sjálfskiptifarþegum hafi fjölgað síðustu misseri. Þegar stærð þessara þriggju fyrrnefndu farþegahópa er heimfærð upp á ferðamannaspá Isavia fyrir þetta ár kemur í ljós að af þessum rúmu 2,2 milljónum ferðamanna, sem gert er ráð fyrir í ár, þá eru 112 þúsund flugfarþegar sem skipta aðeins um flugvél, 134 þúsund fara út fyrir flugstöðina yfir dagspart og um 67 þúsund eru útlendingar sem eru búsettir eru á landinu,“ segir á vef Túrista.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, segir að þetta séu ekki nýjar fréttir, að tölur um fjölda ferðamanna séu ofmetnar. En hún segir að það sé nauðsynlegt að meta hvert umfangið sé, svo það sé hægt að byggja með ábyggilegum hætti á gögnunum í annarri vinnu. „Það hefur alltaf legið fyrir að fjöldi ferðamanna væri ofmetinn og sá fyrirvari hefur alltaf verið gerður við tölurnar. Skekkjan er því alls ekki ný af nálinni. En að sjálfsögðu er þýðingarmikið að fá þetta mat á umfangi hennar og ég mun leggja áherslu á að þetta verði mælt áfram,” segir Þórdís Kolbrún. „ Á sama hátt og það er mikilvægt að ofmeta ekki fjölda ferðamanna er líka mikilvægt að ofmeta ekki skekkjuna. Ég get því ekki tekið undir með Samtökum ferðaþjónustunnar þegar þau segja að skekkjan sé „að minnsta kosti” sú sem þessi könnun sýnir. Hún gæti allt eins verið eitthvað minni, og engin rök sem hníga að því að hún sé frekar meiri en minni. Eðlilegast er að miða bara við þá tölu sem mælingin sýnir. Ég ítreka að það er mikilvægt að halda áfram að auka gæði og nákvæmni mælinganna og ég mun ræða það við Ferðamálastofu, ISAVIA og SAF,” segir í hún í viðtali við Túrista.
Samkvæmt spám sem greinendur hafa vitnað til, meðal annars greiningardeildir fjármálafyrirtækja og Seðlabanki Íslands, þá er gert ráð fyrir að fjöldi ferðamanna verði um 2,3 milljónir á þessu ári, en í fyrra var hann 1,8 milljónir. Eins og að framan er greint, er þetta þó málum blandið og ekki augljóst hver hin rétta tala er.