Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, fjallar um mælingar á lífsgæðum í ítarlegri grein í Vísbendingu. Er þar meðal annars vikið að því hvernig megi greina óáþreifanleg gæði og mæla þau við mat á lífskjörum.
Tinna birti á dögunum vísindagrein í samstarfi við dr. Þórhildi Ólafsdóttur, við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, og Edward C. Norton, prófessor við Háskólann í Michigan, þar sem meðal annars er verið að greina virði þess að losna við þráláta verki.
„En er hægt að meta slíkt? Hætt er við því að svör einstaklinga við beinum spurningum um virði þess að losna undan verkjum væru frekar ómarkviss og kannski helst á þá vegu að heilsan sé ómetanleg. Ýmislegt í atferli fólks ber þess þó merki að önnur gæði geti verið metin mikilvægari. Fólk er oft á tíðum ekki tilbúið til þess að fórna öðrum lífsgæðum fyrir heilsuna. Dæmi þess sjáum við reglulega í hegðun fólks sem kýs sjálft að fórna heilbrigðum lífsháttum fyrir önnur gæði með athöfnum sínum. Hér má nefna óhollt mataræði, hættuleg störf eða litla líkamshreyfingu sem meðal annars kemur fram í ofnotkun á ökutækjum. Sá einstaklingur sem fer fótgangandi til vinnu sinnar, svo dæmi sé tekið, er fyrir þær sakir í betra líkamlegu ástandi og getur vænst lengri og betri lífdaga. En af hverju ganga ekki allir til vinnu sinnar? Ástæðan hlýtur að vera sú að önnur markmið ráði ferðinni; til greina kemur t.d. að einstaklingurinn sækist frekar eftir þeim auknu tekjum og meiri neyslu sem fleiri vinnustundir geti skilað, þar sem um ræðir gæði sem greiða þarf fyrir. Einstaklingurinn fórnar þá heilbrigði fyrir ýmis önnur lífsgæði. Tími er hér dæmi um takmarkaða auðlind og einstaklingurinn er sjálfur ekki tilbúinn til þess að fórna þeim tækifærum sem tíminn getur skapað honum á öðrum vettvangi fyrir heilsuna. Heilsa er flestum mikilvæg en er þó ekki það eina sem veitir fólki velferð,“ segir meðal annars í greininni.
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér, en ritið er sérfræðirit um viðskipti, efnahagsmál og nýsköpun.