Advania hanaðist um 173 milljónir króna á fyrstu sex mánuðum ársins 2017. Alls námu heildartekjur fyrirtækisins á tímabilinu um 6,1 milljarði króna og hækkuðu um 5,3 prósent milli ára. Hagnaðurinn þrefaldaðist hins vegar frá sama tíma í fyrra.
Í tilkynningu segir að hagnaður fyrir fjármagsgjöld, skatta og afskriftir (EBITDA) hafi verið 527 milljónir króna, eða 45 prósent hærri en á sama tíma í fyrra. Ægir Már Þórsson, forstjóri Advania, segir að reksturinn hafi gengið mjög vel á fyrri hluta ársins. „Tekjuvöxturinn er sérstaklega ánægjulegur, ekki síst í ljósi þess að hluti teknanna er í erlendri mynt og gengisþróun á tímabilinu var óhagstæð. Eftirspurn eftir okkar þjónustu hefur aukist mikið og við sjáum fram á áframhaldandi vöxt, enda horfa öll stærri fyrirtæki til upplýsingatækninnar í auknum mæli til að efla sinn rekstur, auka skilvirkni og styrkja sig á samkeppnismarkaði. Í því felast mikil tækifæri fyrir okkur."
Alls vinna um 600 manns hjá Advania, sem starfar á sviði upplýsingatækni og veitir viðskiptavinum sínum alhliða þjónustu og ráðgjöf.
Advania varð til eftir hrun, nánar tiltekið árið 2012, þegar nokkur félög voru sameinuð í eitt stórt upplýsingafyrirtæki. Á meðal þeirra félaga sem sett voru inn í Advania voru EJS og SKÝRR, sem eitt sinn hét Skýrsluvélar ríkisins og var þá opinbert fyrirtæki. Fyrirtækið er að öllu leyti í eigu sænska félagsins AdvInvest og hefur verið það frá því í apríl 2015.
p.p1 {margin: 0.0px 0.0px 0.0px 0.0px; font: 11.0px 'Trebuchet MS'; -webkit-text-stroke: #000000} span.s1 {font-kerning: none}