Björgólfur Guðmundsson, fyrrverandi stjórnarformaður Landsbankans, og átta aðrir sem voru ákærðir í máli sem höfðað var gegn þeim fyrir dómstólum í París í Frakklandi, voru í dag sýknaðir. Frá þessu er greint á vef RÚV.
Aðalmeðferð í málinu, sem var gegn Björgólfi, Gunnari Thoroddsen, fyrrverandi yfirmanni Landsbankans í Lúxemborg, og sjö öðrum einstaklingum sem störfuðu beint eða óbeint fyrir bankann hófst fyrir í sakadómi í París í byrjun maí. Þeir sem voru ákærðir í málinu var gefið að hafa brotið gegn grein í frönskum hegningarlögum sem fjallar um loforð um áhættulaus viðskipti.
Málið hafði verið í undirbúningi og rannsókn árum saman. Einn þekktasti rannsóknardómari Frakklands, Renaud Van Ruymbeke, rannsakaði það og skilaði niðurstöðu síðla árs 2014. Skömmu síðar voru níu einstaklingar og lögaðilinn Landsbankinn í Lúxemborg ákærðir í málinu. Samkvæmt frönskum fjölmiðlum gátu brotin sem um ræðir leitt að sér allt að fimm ára fangelsisdóma og sekt upp á 375 þúsund evrur, um 43,4 milljónir króna á gengi dagsins í dag.
Málið var mjög umfangsmikið og aðalmeðferð þess stóð í nokkrar vikur. Líkt og áður sagði voru allir ákærðu sýknaðir í dag.
Keyptu skuldabréf íslensku bankanna
Í málinu var Landsbankanum í Lúxemborg, Björgólfi Guðmundssyni, Gunnari Thoroddsen og sjö öðrum gefið að hafa blekkt um eitt hundrað aðila á árunum 2006 til 2008. Á meðal annarra sem voru ákærðir voru þrír fyrrverandi yfirmenn hjá Landsbankanum í Lúxemborg; Daninn Torben Bjerregaard Jensen, Svíinn Olle Lindfors og Belginn Failly Vincent. Flestir þeir aðilar sem töldu sig hafa verið blekktir af Landsbankanum eru ellilífeyrisþegar og 22 meint fórnarlömb bankans hafa látist frá því að málið kom upp.
Einn þeirra sem taldi sig blekktan vegna þess sem kallað er í frönskum fjölmiðlum svikamylla Landsbankans var Enrico Macias, 78 ára gamall söngvari sem er þjóðþekktur í Frakklandi. Í málsgögnum sem Kjarninn hefur undir höndum sagði að Macias hafi verið boðið að fá 35 milljónir evra að láni til 20 ára og að vextirnir á láninu yrðu 9,69 prósent. Hann átti að fá níu milljónir evra útgreiddar en afgangur lánsins yrði settur í fjárfestingar hjá Landsbankanum í Lúxemborg sem átti að skila nægjanlegri ávöxtun til að borga vaxtarkostnaðinn af láninu hið minnsta.
Macias var því í raun boðið að losa um níu milljónir evra, um einn milljarð króna, í gegnum þann strúktúr sem honum var boðinn. Á móti þurfti hann hins vegar að setja raunveruleg veð í fasteignum. Í málsgögnunum segir Macias að hann hafi verið blekktur og að Landsbankinn í Lúxemborg hafi misnotað umboð sitt til fjárfestinga fyrir lánsféð með því t.d. að kaupa skuldabréf á Landsbankann á Íslandi og Kaupþing skömmu áður en bankarnir tveir féllu haustið 2008.
Þau skuldabréf féllu gríðarlega í verði við bankahrunið, enda kröfuhafaröð breytt og innlán gerð að forgangskröfum. Auk þess var því haldið fram við málsmeðferðina að rangar upplýsingar hafi verið gefnar um sterka stöðu Landsbanka Íslands.
Virði fasteigna blásið upp til að hækka lánin
Svikamyllan sem fólkið hélt fram að það hafi verið blekkt til að taka þátt í snérist því um að Landsbankinn hafi fjárfest lánin sem það veitti fólkinu með öðrum hætti en því hafði verið sagt og að staða bankans hafi verið mun verri en þeir sem seldu fólkinu aðkomu að viðskiptunum höfðu haldið fram.
Slitabú Landsbankans í Lúxemborg hélt hins vegar áfram að reyna að innheimta lánin sem veitt voru með þessum hætti og það hefur sett þá sem þau tóku í mikinn fjárhagsvanda.
Langflestir sem tóku þátt í þessum viðskiptum Landsbankans í Lúxemborg eru ekki jafn efnað fólk og Macias og ekki er um jafn háar upphæðir að ræða. Og hluti hópsins fékk ekki greitt út 25 prósent lánsins sem var veitt heldur setti það allt í fjárfestingu hjá Landsbankanum.
Á heimasíðu sem hópurinn heldur út, og kallast www.landsbankivictims .co.uk, segir að hópurinn hafi „tekið þátt í þessari hræðilegu svikamyllu eftir að gengið var á eftir okkur. Tilgangurinn var að hagnast á fjárfestingunni og veita okkur áhyggjulaust ævikvöld og vernda börnin okkar.“ Þar segir enn fremur að virði húsa fólksins hafi verið blásin upp svo þau gætu fengið hærri lán gegn hærri veðum. Þannig gat Landsbankinn bókfært hærri upphæð sem útlán og fékk hærri upphæð til að fjárfesta fyrir í nafni ellilífeyrisþeganna. „Við vorum blekkt,“ segir á heimasíðunni.
Lögmaður Björgólfs Guðmundssonar sagði við RÚV í september 2014 að búið hefði verið að koma því á framfæri við rannsóknardómarann í Frakklandi að Björgólfur hefði ekki haft nein yfirráð yfir Landsbankanum í Lúxemborg. Hann var samt sem áður ákærður í málinu.
Sigrún Davíðsdóttir, fréttamaður RÚV, var viðstödd dómsuppkvaðningu í París fyrr í dag. Í frétt á vef RÚV er haft eftir henni að farið hafi verið yfir hvort fjármálaástandið á Íslandi hafi haft áhrif á rekstur bankans í Lúxemborg, hvort að hegðun ákærðu í málinu gætu verið skilgreind sem svik, hvort að lántökum hafi verið lofað einhverju, eða gefin einhver trygging, um gæði lána. Öllum þessum spurningum hafi verið svarað neitandi.