Karólína Helga Símonardóttir, sem mun taka sæti Theódóru S. Þorsteinsdóttur á þingi um komandi áramót, segir að ýmislegt sé gamaldags við þingstörfin sem megi breyta. Til að mynda séu vinnudagar langir og það sé dæmi um karllægt vinnuumhverfi. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Hún segist þó ekki deila áhyggjum Theódóru, sem situr á þingi fyrir Bjarta framtíð, sem hélt því fram í viðtali um helgina að Alþingi væri eins og málstofa sem leiði sjaldnast til niðurstöðu.
Theodóra segir sjálf við blaðið að hún líti á þann frest sem hún hefur gefið fyrir brotthvarfi sínu af þingi vera eðlilegan uppsagnarfrest. Þannig hafi eftirmaður hennar tíma tím að undirbúa sig. Auk þess ætlar hún að beita sér fyrir nokkrum málum á komandi þingi. Meðal annars ætlar hún að kalla eftir skýrslu varðandi bankamál. „Til dæmis til að sjá hvert umfangið er hjá þeim sem hafa misst bæði fyrirtæki og heimili á grundvelli ólöglegra lána.“
Ætlar að einbeita sér að Kópavogi
Theodóra greindi frá því í viðtali við Kópavogsblað um helgina að hún ætli að segja af sér þingmennsku um áramót, en hún verður þá einungis búin að sitja sem þingmaður í rúmt ár.
Hún ætlar þess í stað að einbeita sér að störfum sínum sem oddviti Bjartrar framtíðar í Kópavogi, þar sem flokkurinn er í sveitastjórn. Theodóra hefur gegnt báðum störfum frá því að hún var kjörin á þing og þegið laun fyrir þau bæði. Fyrir það hefur hún verið harðlega gagnrýnd en sjálf hefur hún bent á að ýmsir karlmenn hafi gert slíkt hið sama á árum áður.
Sveitastjórnarkosningar fara fram í lok maí næstkomandi. Flokkur Theodóru, Björt framtíð, situr í ríkisstjórn.
Í viðtalinu sagði Theodóra: „Þingstörfin hafa komið mér á óvart og snúast ekki, ólíkt störfum í sveitarfélaginu, um stefnumótun og framkvæmd verkefna. Þau eru meira eins og málstofa. Flest mál sem samþykkt eru koma úr ráðuneytum í gegnum ríkisstjórn. Við þingmenn höfum svo það hlutverk að fjalla um þau en komum hvergi að neinni stefnumótun eða ákvarðanatöku um strauma og stefnur. Reyndar geta þingmenn óskað umræðu um allt á milli himins og jarðar. Oft er sú umræða á flokkspólitískum nótum, sett upp til að berja sér á brjóst eða berja á pólitískum andstæðingum. Það hentar mér ekki enda leiða þær sjaldnast til nokkurrar niðurstöðu.“