Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, segir að móta þurfi skýra stefnu um eignarhald á landi og jörðum, meðal annars til að koma í veg fyrir að erlendir aðilar geti keypt upp stóran hluta landsins.
Á Facebook síðu sinni gerir hann grein Lilju Alfreðsdóttur, varaformanns flokksins, að umtalsefni og segist taka undir með henni um mikilvægi þess, að móta skýra stefnu. Hann nefnir í leiðinni að þessi mál tengist einnig vanda sauðfjárbænda. „Góð grein hjá Lilju um málefni sem við Framsóknarmenn höfum miklar áhyggjur af hvert stefnir með. Menn muna Grímsstaði en þar stóð til að selja 1.3% (ef ég man rétt) af Íslandi til eins kínverja. Það var stöðvað. En svo kom EES maðurinn fra Bretlandi og keypti . Á síðustu árum hafa efnaðir einstaklingar eignast fleiri jarðir í Vopnafirði og í Fljótum. Tilgangurinn virðist vera sá að komast yfir laxveiðiréttindi. Þar bera menn stórfé á bændur til að eignast heilu dalina, firði og vatnsréttarsvæði - Bænda sem nú ströggla vegna tímabundins vanda sauðfjárræktar. Erlendir aðilar vilja gjarna eignast stórar jarðir/landsvæði. Við munum Jökulsárlón - höfum heyrt af Hjörleifshöfða. Ég held að við viljum ekki þessa þróun - þess vegna þarf að spyrna við fótum.
1. breyta lögum þannig að bannið gildi jafnt um EES borgara sem aðila utan EES - skýra reglur um undanþágur þannig að um tilltölulega lítil landsvæði væri að ræða (t.d. undir 10ha)
2. ríkisvaldið þarf að hafa skýra eigindastefnu (mál sem Þórunn Egilsdóttir hefur lagt fram á þingi) - Kaupa þær jarðir sem við viljum að "þjóðin" eigi. Selja eða leigja aðrar til m.a að tryggja fæðuöryggi og blómlegar byggðir.
3. framkvæma strax skynsamar tillögur sauðfjárbænda vegna núverandi markaðsvanda. - Þetta hangir allt saman,“ segir Sigurður Ingi á Facebook síðu sinni.
Í grein sinni í Fréttablaðinu segir Lilja að mikilvægt sé fyrir stjórnvöld að greina málin vel, og átta sig á mikilvægi þess hversu verðmætt landið sé. „Landið okkar er verðmætt sökum náttúruauðlinda og landfræðilegrar legu. Önnur ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) hafa takmarkað eignarhald erlendra aðila að landi og það eigum við einnig að gera. Núverandi löggjöf er ógagnsæ og heimildir og takmarkanir erlendra aðila utan EES-svæðisins í fasteignum hér á landi því óskýrar m.a. vegna þess að ráðherra getur veitt undanþágu. Því er nauðsynlegt að ráðast í heildarendurskoðun laga um eignarrétt og afnotarétt fasteigna,“ segir Lilja.
Hún nefnir að lög um eignarrétt og afnotarétt fasteigna kveði á um að enginn megi öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir fasteignum á Íslandi, þar á meðal veiðirétt, vatnsréttindi eða önnur fasteignaréttindi, nema að viðkomandi aðili sé íslenskur ríkisborgari eða með lögheimili á Íslandi.
Samkvæmt núgildandi lögum hafa aðilar á EES-svæðinu, einstaklingar og lögaðilar, sömu réttindi og íslenskir ríkisborgarar í þessum efnum. „Hins vegar getur ráðherra vikið frá þessu skilyrði samkvæmt umsókn frá þeim sem hefur rétt til að stunda atvinnurekstur hér á Íslandi og vill öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir fasteign til beinnar notkunar í atvinnustarfsemi sinni eða til að halda þar heimili. Í gildi var reglugerð sem meinaði erlendum aðila með lögheimili á EES-svæðinu að kaupa land nema að kaupin væru liður í að hann nýtti rétt sinn til að hafa á Íslandi lögmæta dvöl eða starfsemi,“ segir í grein Lilju.
Hún segir hættu vera á því að tómarúm myndist sem geri erlendum auðmönnum mögulegt að kaupa upp stóran hluta landsins. „Ef ekkert verður aðhafst, þá myndast tómarúm sem fjársterkir aðilar nýta sér og of seint verður að koma í veg fyrir að náttúruauðlindir glatist úr eigu þjóðarinnar vegna tómlætis. Staðreyndin er sú að landfræðileg lega Íslands er afar verðmæt og mun aukast að verðmæti í framtíðinni meðal annars vegna aukins mikilvægis norðurslóða. Alþingi hefur verk að vinna til að gæta að hagsmunum Íslands.“