Björt Ólafsdóttur, umhverfis- og auðlindaráðherra, segir að ástandið í Reykjanesbæ vegna mengandi stóriðjunnar í Helguvík sé grafalvarlegt. „Fólk er svipt frelsi sínu því það lokar dyrum, gluggum og þorir ekki að senda börn sín út í andrúmsloft sem það finnur greinilega sjálft að ógnar heilsu þeirra og líðan. Ég hef gefið út þau skilaboð bæði útavið og innávið að ég vil enga afslætti gefa á mengunarstöðlum, lýðheilsuviðmiðum og aðgerðum í þá veru.“ Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu sem hún setti á Facebook í morgun.
Þar segir hún að á síðasta sólarhring hafi mikið af fólki sett sig í samband við sig út af stöðunni hjá United Silicon. „ Ég fæ að svara hér því ég hef ekki tölu eða utanumhald á þeim póstum sem ég er "tögguð" í að á þessum tímapunkti er mér ekki ljóst hver nákvæmlega staðan er hjá fyrirtækinu eða hvað hefur gerst, en ég hef þegar beðið um upplýsingar frá UST [Umhverfisstofnun] þess efnis og bíð svara.
En það er þó skýrt að ef slökknað hefur á ljósbogaofni US (eða hann farið undir ákv hitastig) þá hefur Umhverfisstofnun þegar boðað stöðvun á framleiðslu í bréfi sínu til fyrirtækisins í sl. viku.“
Áform eru uppi um að stöðva rekstur kísilmálmverksmiðju United Silicon í Helguvík 10. september næstkomandi til að gera umbætur á búnaði hennar. Þetta kom fram í bréfi sem Umhverfisstofnun sendi fyrirtækinu í síðustu viku.
United Silicon rekur kísilmálmverksmiðju í Helguvík. Félagið óskaði eftir greiðslustöðvun 14. ágúst síðastliðinn. Ástæðan eru erfiðleikar í rekstri kísilmálmverksmiðjunni sem hóf framleiðslu í nóvember 2016, og rekja má til síendurtekinna bilana í búnaði sem hafa valdið félaginu miklu tjóni. Nýfallinn gerðardómur í deilu félagsins við ÍAV hf. eykur enn á óvissu félagsins. Samkvæmt honum þarf United Silicon að greiða ÍAV um einn milljarð króna.
Félagið skuldar Arion banka um átta milljarða króna auk þess sem bankinn átti 16,3 prósent hlut í fyrirtækinu, sem var metinn á einn milljarð króna og hefur verið niðurfærður að fullu í bókum hans. Auk þess áttu þrír íslenskir lífeyrissjóðir hlutafé og skuldabréf á United Silicon upp á 2,2 milljarða króna. hluti þeirrar upphæðar er tapaður.