Sjálfstæðisflokkurinn fengi mestan stuðning allra flokka í Reykjavíkurborg ef borgarstjórnarkosningar færu fram í dag.
Þetta sýna niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis, sem vitnað er á forsíðu Fréttablaðsins í dag.
Flokkurinn fengi 34,2 prósent atkvæða. Það er næstum tvöfalt meira en Vinstri grænir fengju, en þeir eru næststærsti flokkurinn samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar. Samfylkingin er með 13,7 prósent, Píratar 12,4 prósent. Flokkur fólksins mælist með 7 prósenta fylgi.
Framsóknarflokkurinn mælist aðeins með 2,7 prósent fylgi eða með sama fylgi og Björt framtíð. Viðreisn, sem þegar hefur tilkynnt að flokkurinn ætli að bjóða fram í sveitastjórnarkosningum í Reykjavík í fyrsta sinn í vor, mælist með 5,8 prósent fylgi.
Í viðtali við Fréttablaðið segir Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni, að hann telji mikla hreyfingu vera á fylginu að sú verði vafalítið raunin, þar til það skýrist, hverjir muni vera á listum flokkanna sem bjóða fram í sveitarstjórnarkosningunum næsta vor. Halldór hefur þegar tilkynnt að hann muni sjálfur ekki vera í framboði þar.
Eftir síðustu kosningar var myndaður meirihluti í Reykjavíkurborg sem samansettur er af Samfylkingu, Bjartri framtíð, Vinstri grænum og Pírötum. Könnun Gallup fyrir Viðskiptablaðið, sem gerð var í byrjun júní síðastliðins, sýndi að hann myndi ekki verða í neinum vandræðum með að halda ef kosið hefði verið þá. Saman mældust flokkarnir með 61,4 prósent fylgi en fengu 61,7 prósent í kosningunum 2014. Valdahlutföll innan meirihlutans myndu þó eitthvað breytast. Samfylkingin myndi til að mynda fara úr 31,9 prósent fylgi í 22,3 prósent fylgi.
Samkvæmt könnun Fréttablaðsins sem birt var í dag næði sá meirihluti ekki 50 prósent atkvæða ef kosið væri í dag.