HB Grandi hf. hefur selt Ísfiski hf. bolfiskvinnsluhús sitt að Bárugötu 8-10 á Akranesi. Söluverð hússins og hluta af vinnslulínu er 340 milljónir króna. Ísfiskur mun hefja bolfiskvinnslu í húsinu á Akranesi í byrjun næsta árs. Þetta kemur fram í tilkynningu frá HB Granda til Kauphallar Íslands.
HB Grandi tilkynnti það 11. maí síðastliðinn, á fundi með trúnaðarmönnum, að vinnsla á botnfiskvinnslu yrði aflögð á Akranesi. Botnfiskvinnslan yrði sameinuð vinnslu félagsins í Reykjavík frá og með 1. september. Þetta leiddi til þess að 86 manns var sagt upp störfum. Í tilkynningu vegna þess kom fram að samtímis yrði „starfsfólki boðið að sækja um önnur störf hjá HB Granda og dótturfélögum í Reykjavík og á Akranesi. Vonir standa til að hægt verði að bjóða öllu starfsfólki sem þess óskar starf við hæfi.“
Þar sagði jafnframt að starfsfólk sem ekki fær vinnu við hæfi muni fá aðstoð við atvinnuleit á vegum fyrirtæksisins.
HB Grandi rekur einnig uppsjávarvinnslu, fiskimjölsverksmiðju og dótturfélögin Norðanfisk og Vignir G. Jónsson á Akranesi. Félagið agði í vor að það myndi leggja kraft í að efla þessar rekstrareiningar og fullvinnslu sjávarafurða á Akranesi.
Ekki kemur fram í tilkynningu HB Granda hversu mörg störf verði til hjá Ísfiski þegar starfsemi hefst að nýju í bolfisksvinnsluhúsinu.