Heildartekjur ríkisins á tímabilinu janúar til og með júlí á þessu ári námu 358,7 milljörðum króna sem var 3,5 milljörðum undir áætlun. Þetta er meðal þess sem fram kemur í sex mánaða uppgjöri ríkisins frá Fjársýslu ríkisins.
Miklu munar um að tekjuskattur einstaklinga var 8,7 milljörðum króna undir áætlun sem skýrist af um 10 milljarða króna endurgreiðslu vegna uppgjörs ársins 2016 sem var í júní en áætlun gerði ráð fyrir að yrði í júlí.
Í stórum dráttum telst uppgjörið í takt við væntingar stjórnvalda, en þó má lesa út úr uppgjörinu að krefjandi verður fyrir ríkið að halda aftur af útgjaldaaukningu á síðari hluta ársins.
Tekjujöfnuður tímabilsins er fjórir milljarðar króna sem er 3,8 milljörðum króna umfram áætlun tímabilsins. „Ef tekið er tillit til frávika á endurgreiðslu tekjuskatts, fjárheimildastöðu fyrra árs og vaxtagjalda við uppgreiðslu á erlendu skuldabréfi þá er tekjujöfnuður 5,1 milljarðar umfram áætlun tímabilsins,“ segir í tilkynningu vegna uppgjörsins.
Sé litið til þess hvernig áætlanir voru og fjárheimildar, þá voru útgjöld 10,7 milljörðum króna hærri.
Miklu munar fyrir ríkið, þegar kemur að arðgreiðslum úr bönkunum tveimur sem ríkið, Landsbankanum (ríflega 98 prósent) og Íslandsbanka (100 prósent). Samanlagt eigin fé bankanna er yfir 450 milljarðar króna.
Fjármagnstekjur námu 28,7 milljörðum eða 4,4 milljörðum yfir áætlun „sem skýrist aðallega af arðgreiðslum af eign ríkisins í Landsbankanum og Íslandsbanka,“ eins og segir í tilkynningu.