Eigendur Kaupþings vildu afhenda ríkinu Arion banka sem hluta af stöðugleikaskilyrðunum árið 2015 en ekki varð af því.
Frá þessu er greint í ViðskiptaMogganum í dag. „Þetta er pólitísk ákvörðun og ríkisstjórnin sem nú situr vill selja sinn hlut í bankanum og út frá því vinnum við. Þeir hefðu getað þjóðnýtt bankann á sínum tíma, þeim var boðið það. Ég er maður sem leysi upp þrotabú. Ef þeir vilja nú fara aðra leið ættum við að ræða það og gera það, en miðað við núverandi stefnu, sem er að selja bankann, vil ég gera það á sem átakaminnstan hátt í góðu samstarfi við alla,“ segir Paul Copley, forstjóri Kaupþings, í viðtali í ViðskiptaMogganum í dag.
Copley segir að þegar hann hóf störf hjá Kaupþingi í apríl á síðasta ári hafi verið í skoðun að hafa frumútboð á stórum hluta af hlut Kaupþings í Arion banka. Hann segir að hætt hafi verið við það eftir að Panama-skjölin voru birt og stjórnarskipti urðu í kjölfarið.
Þrír vogunarsjóðir og bandaríski fjárfestingabankinn Goldman Sachs International, sem keyptu 29,18 prósent hlut í Arion banka í lokuðu útboði snemma á þessu ári, ætla ekki að nýta sér kauprétt á 21,9 prósent hlut sem þeir höfðu samið um, og þurftu að nýta fyrir 19. september næstkomandi.
Þar segir að hvorki Goldman Sachs né vogunarsjóðirnir þrír, Taconic Capital, Och-Ziff Capital Management, AttestorCapital, ætli sér að nýta kaupréttinn.
Til stendur að fram fari hlutafjárútboð í október eða nóvember þar sem 58 prósent hlutur í Arion banka verður seldur.
Í Markaðnum segir að hann hafi heimildir fyrir því að verulegur áhugi sé hjá erlendum sjóðum að taka þátt í því útboði. Fossar markaðir, sem verði söluráðgjafar Kaupþings í útboðinu, hafi þegar safnað fjárfestaloforðum fyrir um 90 til 100 milljarða króna. Í Markaðnum segir að um sé að ræða „sömu sjóði og hafa verið umsvifamiklir í fjárfestingum í skráðum félögum síðustu misseri – Eaton Vance, Wellington og Miton – og eins aðra erlenda sjóði sem hafa ekki áður fjárfest á Íslandi og eru meðal annars hluthafar í ýmsum evrópskum fjármálafyrirtækjum.“