Sigríður Dögg Auðunsdóttir, sem starfað hefur á Fréttastofu RÚV frá því fyrr á þessu ári, hefur verið ráðin nýr dagskrárgerðarmaður í Morgunútvarp Rásar 2. Sigríður Dögg vann um nokkurra ára skeið á Fréttablaðinu og var ritstjóri Fréttatímans áður en hún hóf störf á Fréttastofu RÚV. Sigríður Dögg mun stýra Morgunútvarpinu í vetur með Sigmari Guðmundssyni og Atla Má Steinarssyni.
Kjarninn greindi frá því fyrir rúmri viku að Karen Kjartansdóttir hefði verið ráðin í stöðuna sem Sigríður Dögg tekur nú við. Í tilkynningu frá RÚV segir að ráðning Karenar hafi gengið til baka eftir að hún óskaði eftir því af persónulegum ástæðum.
Nokkrar breytingar verða á skipan fólks í fréttaþáttum RÚV í vetur. Ráðning Sigríðar Daggar er liður í þeirri breytingu. Þau Guðrún Sóley Gestsdóttir og Aðalsteinn Kjartansson sem hafa stjórnað Morgunútvarpinu ásamt Sigmari undanfarin misseri hverfa bæði úr útvarpinu í sjónvarpið.
Guðrún Sóley verður einn dagskrárgerðarmanna í Menningunni og Aðalsteinn verður blaðamaður í nýjum fréttaskýringaþætti Kastljóssins sem sýndur verður vikulega í Sjónvarpinu. Á öðrum virkum dögum er Kastljósið nú spjallþáttur þar sem málefni hvers dags verða efst á baugi.