Af tólf innlendum hlutabréfasjóðum, sem sýna ávöxtun á viðskiptavefnum Keldunni, eru fjórir sem hafa ávaxtað eignir með mun lakari hætti en þróunin á markaðnum á undanförnum tólf mánuðum hefur verið.
Sé miðað við stöðuna sem var á markaðnum 31. ágúst hafði vísitalan lækkað um 3,3 prósent á undanförnum tólf mánuðum, en eins og áður segir höfðu fjórir sjóðir sýnt töluvert lakari ávöxtun en það.
Alda hlutabréfasjóður, upp á einn milljarð, var með neikvæða ávöxtun upp á 7,25 prósent, Stefnir ÍS, upp á 27 milljarða, var með neikvæða ávöxtun upp á 7,33 prósent, Öndvegisbréf Landsbréfa, upp á fimm milljarða, var með neikvæða ávöxtun upp á 9,24 prósent og Landsbréf úrvalsbréf, upp á 13,3 milljarða, var með neikvæða ávöxtun upp á 11,66 prósent.
Samanlagt eru þeir sjóðir sem eru með töluvert lakari ávöxtun en sem nemur markaðsþróuninni, 45,3 milljarðar króna að stærð.
Bestu ávöxtunina hefur sjóðurinn Júpiter Innlend sýnt, eða jákvæða ávöxtun um 6,48 prósent. Tveir aðrir sjóðir hafa sýnt jákvæða ávöxtun á síðustu tólf mánuðum. Það eru ÍV hlutabréf, með rúmlega tvö prósent jákvæða ávöxtun, og GAMMA Equity með 0,44 prósent.