„Þrátt fyrir vandlega leit í læknisfræðibókmenntum okkar tíma hefur mér ekki tekist að finna þess merki að búið sé að sýna fram á með vísindalegum aðferðum að myglusveppir í húsum vegi að heilsu manna.“
Þetta segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í grein í Fréttablaðinu í dag, þar sem hann fjallar um myglusvepp í húsum. Hann segir engan iðnað í landinu hafa vaxið hraðar - að ferðaþjónustunni undanskilinni - heldur en iðnað sem tengdur er myglusvepp.
Hann segir að íslensk þjóð virðist vera sannfærð um slæm áhrif mygslusvepps þrátt fyrir að engar sannanir séu til fyrir því.
„Þrátt fyrir það velkist íslensk þjóð ekki í vafa um áhrif myglusveppa á heilsu og má sjá merki þess víða í samfélaginu. Til dæmis ef ekið er austur Sæbrautina blasir við risastórt hús, autt, þar sem einu sinni var banki sem var ýmist fallítt eða ekki. Húsið var rýmt af því að margir starfsmenn bankans urðu lasnir og sumir bráðlasnir af völdum myglusvepps, sem læknisfræðin veit ekki enn hvort vegur að heilsu fólks eða ekki. Þetta hús er svo stórt að ef það hefði verið rýmt áður en draugarnir hurfu annað hefðu þeir allir rúmast þar, getað flutt þangað vegna þess að mér finnst líklegt að draugar séu ónæmir fyrir myglusveppum,“ segir Kári.
Hann segir að það væri ekki úr vegi, að byrja á því að rannsaka hvort myglusveppur sé heilsuspillandi áður en risavaxin hús eru dæmd ónýt. „Svo er það hús Orkuveitunnar og þúsundir annarra húsa víðsvegar um landið og okkur er sagt að tjónið af völdum myglusvepps á Íslandi nemi tugum miljarða. Þetta byrjaði á því að inn í hús nokkur kom ung kona í kafarabúningi (ghost buster) og fann myglusveppi grimmilega sem hún lagði á mjaðmahnykk. Síðan þá hefur baráttan við myglusveppinn orðið mjög stór iðnaður á Íslandi og engin atvinnugrein vaxið meira í landinu nema ferða- þjónustan. Nú er ég ekki að halda því fram að það sé loku fyrir það skotið að myglusveppur í húsum geti valdið heilsuvanda hjá þeim sem þar búa eða vinna á sama máta og ég er ekki viss um nema draugar séu til, í báðum þessum tilfellum vantar einfaldlega sönnun þess að svo sé. Þess vegna væri ekki úr vegi að byrja á því að rannsaka málið áður en hús eru dæmd ónýt og rifin og tugmiljarða króna tjón gert að raunveruleika. Rannsókn á skaða þeim sem myglusveppur kann að valda á heilsu manna verður eingöngu unnin á Íslandi vegna þess að í öðrum löndum búa maðurinn og sveppurinn í friðsömu sambýli og hvorugur kvartar undan hinum,“ segir Kári.