United Silicon tilkynnti í gær að fyrirtækið hefði ráðið Karen Kjartansdóttur til að sinna hlutverki talsmanns síns næstu mánuði. Þetta kom fram í tilkynningu frá United Silicon þar sem einnig var greint frá því að fyrirtækið hefði fengið þriggja mánaða framlengingu á greiðslustöðvun sinni, sem stendur nú yfir til byrjun desember. Starfsemi United Silicon er sem stendur stopp og verður ekki hleypt aftur af stað fyrr en að skilyrði Umhverfisstofnunar um starfsemina verða uppfyllt.
Kjarninn greindi frá því í ágúst að Karen hefði verið ráðin sem einn umsjónarmanna Morgunútvarpsins á Rás 2. Hún átti að stýra þættinum ásamt Sigmari Guðmundssyni og tæknimanninum Atla Má Steinarssyni.
Í síðustu viku sendi RÚV hins vegar frá sér tilkynningu þar sem fram kom að Sigríður Dögg Auðunsdóttir, sem starfað hefur á Fréttastofu RÚV frá því fyrr á þessu ári, hefði verið ráðin nýr dagskrárgerðarmaður í Morgunútvarp Rásar 2. Sigríður Dögg vann um nokkurra ára skeið á Fréttablaðinu og var ritstjóri Fréttatímans áður en hún hóf störf á Fréttastofu RÚV. Í tilkynningu frá RÚV sagði einnig að ráðning Karenar hafi gengið til baka eftir að hún óskaði eftir því af persónulegum ástæðum.
Í fréttatilkynningu frá United Silicon, sem var send út í gær, sagði að stjórn fyrirtækisins hefði „fengið Karen Kjartansdóttur til að sinna hlutverki talsmanns fyrirtækisins næstu mánuði. Hún hefur mikla reynslu af fjölmiðlum, var samskiptastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi á árunum 2013-2016 og hefur á þessu ári unnið á ráðgjafastofunni Aton. Þá hefur stjórnin fengið Kristin Bjarnason hrl. til ráðgjafar fyrir félagið. Kristinn er einn reyndasti lögmaður landsins í störfum fyrir fyrirtæki í greiðslustöðvun og nauðasamningsumleitunum.“
Karen segir sjálf í stöðuuppfærslu á Facebook í dag að hún sé þakklát RÚV fyrir að hafa viljað fá hana til starfa. Henni þyki einnig afar leitt að hafa þurft að hafna góðu starfstilboði og að hún muni eflaust sjá eftir þeirri ákvörðun. „Hins vegar virðist engin hörgull á hæfileikafólki þarna upp í Efstaleiti. Þótt mér þyki fá störf jafn mikilvæg í nokkru samfélagi og vel unnin verk innan fjölmiðlunar þótti mér sú reynsla og innsýn sem verkefni innan United Silicon þess eðlis að ég ákvað að afþakka gott boð og þakka sýndan skilning á ákvörðun minni. Takk takk. Ég hlakka svo til áskoranna næstu mánaða, og kvíði þeim um leið.“