Ólafía B. Rafnsdóttir, aðstoðarmaður fjármála- og efnahagsráðherra, er í stjórn samninganefndar ríkisins vegna fyrirhugaðra kjarasamninga. Ólafía var um árabil formaður VR, stærsta stéttarfélags landsins, og varaformaður Alþýðusambands Íslands (ASÍ). Þá sat hún á hinum enda samningaborðsins, þ.e. sem fulltrúi launafólks.
Hún tapaði formannskosningum í VR fyrir Ragnari Þór Ingólfssyni fyrr á þessu ári og var skömmu síðar ráðin aðstoðarmaður Benedikts Jóhannessonar, fjármála- og efnahagsráðherra. Nú er ljóst að hún verður áfram beinn þátttakandi í komandi kjaraviðræðum, en þó í nýju hlutverki.
Gunnar Björnsson skrifstofustjóri Kjara- og mannauðssýslu ríkisins er formaður samninganefndar ríkisins. Auk hans og Ólafíu eru Guðmundur H. Guðmundsson, sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Guðrún Ragnarsdóttir, fulltrúi fjármála- og efnahagsráðherra, Unnur Ágústsdóttir, fulltrúi heilbrigðisráðherra, og Þórlindur Kjartansson, fulltrúi mennta- og menningarmálaráðherra í samninganefndinni. Guðmundur er varaformaður hennar.
Hann benti á að kaupmáttur launa hefði aukist um 25 prósent frá janúar 2014. „Okkar mikilvægasta verkefni er að ná samstöðu um hvernig við getum viðhaldið þeim kaupmætti. Til þess að gera það er nauðsynlegt að horfa á heildarmyndina, það er að þegar allt er tekið saman verði niðurstaðan góð fyrir alla. Þess vegna munum við leggja áherslu á að horfa til þróunar efnahagsmála og möguleg áhrif kjarasamninga á hana og öfugt. Þar teljum við mikilvægt að skapa forsendur fyrir stöðugra gengi og lægri vexti auk þess sem lækkun virðisaukaskatts mun styðja við okkar markmið um að styrkja kaupmátt. Þá viljum við fara yfir aðra þætti sem launþegahreyfingarnar hafa lagt áherslu á og miða að því að skapa samkeppnishæft vinnuumhverfi hjá ríkinu, eins og vinnutilhögun og önnur atriði sem snúa ekki endilega beint að launaliðnum.“