Gömlu leiðirnar til að takast á við vanda sauðfjárbænda, útflutningsskylda og stórtæk uppkaup á birgðavanda, bitna á neytendum og halda uppi verði innanlands. Þær þjóna hvorki bændum né neytendum. Þetta segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í fyrsta þætti Kjarnans á Hringbraut þennan veturinn. Þátturinn er á dagskrá í kvöld.
Þar ræðir Þorgerður nýframlagðar tillögur sínar til að mæta vanda sauðfjárbænda, sem munu kosta 650 milljónir króna til viðbótar við þá fimm milljarða króna sem þeir fá í beingreiðslur samkvæmt fjárlögum og þær 100 milljónir króna sem þeir fengu á fjáraukalögum til að auka markaðsstarf.
Þorgerður segir í þættinum að ef fyrirsagnir fjölmiðla aftur til ársins 1985 séu skoðaðar þá séu þær allar eins varðandi stöðu sauðfjárbænda. Framleiðsla sé of mikil og til að mæta henni sé áhersla lögð á að taka upp eða auka útflutningsskyldu eða að ríkissjóður ráðist í stórtæk uppkaup á umframbirgðum. „„Birgðavandinn í dag virðist vera svona svipaður og hefur verið undanfarin tvö þrjú ár. Þá skulum við gefa okkur tíma og gera þetta rétt, þannig að við lendum ekki alltaf í sama gamla farinu. Það þjónar ekki bændum og það þjónar ekki neytendum.“
Hún segir að það megi vel gagnrýna hana fyrir að leggja fram tímabundið viðbótarfjármagn í sauðfjárræktina en að hún sé nú að beita sér fyrir því að ráðast að rót vandans. Þorgerður viðurkennir að hún sé ekki að horfa á vanda afurðastöðva í tillögum sínum og býst við harðri gagnrýni frá þeim. Eins og er sé hins vegar einhugur um tillögurnar innar ríkisstjórnarinnar, þótt skiptar skoðanir séu um þær á meðal þingmanna stjórnarflokkanna.
Auk Þorgerðar er Svavar Halldórsson, formaður Markaðsráðs kindakjöts, gestur þáttarins að þessu sinni. Hann fer m.a. yfir þær leiðir sem verið er að fara til að auka útflutning á gæðalambakjöti.