Opinber innviðaverkefni hér á landi fara að meðaltali nálægt 70% fram úr áætlun og 90% af stærri verkefnum standast hvorki kostnaðar- né tímaáætlanir.
Þetta er meðal þess sem kemur fram hjá Þórði Víkingi Friðgeirssyni, forstöðumanni CORDA, rannsóknarseturs í ákvörðunar- og áhættufræðum við Háskólann í Reykjavík, í Morgunblaðinu í dag.
Vitnað er til þess í viðtalinu að á bilinu 200 til 300 milljarðar innviðaframkvæmdir séu nú á teikniborðinu, og eru þar meðal annars samgönguframkvæmdir undir. Hann nefnir að mikið sé í húfi þar sem framúrkeyrsla geti kostað gríðarlega fjármuni. Fari til dæmis þessar framkvæmdir, sem hafa verið teiknaðarupp, um 20 prósent framúr áætlunum þá geti það numið heildarkostnaði ný landspítala. „Það er óásættanlegt að vera með svona tíða framúrkeyrslu og mikla kerfisáhættu í verkefnum þar sem almenningur borgar brúsann,“ segir hann í umfjöllun um mál þetta í ViðskiptaMogganum í dag.