Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður hefur ásamt hópi fjárfesta keypt Vefpressuna, sem meðal annars á DV og vefinn Eyjuna, fyrir um 400-500 milljónir króna. Um er að ræða hlutafjáraukningu sem rennur einkum til greiðslu opinberra gjalda og annarra skuldbindinga.
Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag, en tollstjóri fór í gær fram á að DV yrði tekið til gjaldþrotaskipta ef skuldir á opinberum gjöldum, upp á yfir 350 milljónir króna, yrðu ekki greiddar.
Þegar líða tók á gærdaginn hafði það verið gert, að því er fram kemur í Morgunblaðinu.
Hermt er að Björn Ingi Hrafnsson, stofnandi Vefpressunnar og fyrrverandi borgarfulltrúi, hafi verið í sjálfskuldarábyrgðum og átti því mikið undir því að samstæðan yrði ekki gjaldþrota, að því er segir í Morgunblaðinu.
Greint hefur verið frá því, meðal annars á vef Kjarnans, að skuldir Vefpressunnar og DV hafi aukist undanfarna mánuði og nemi heildarskuldir samstæðunnar nú rúmlega 700 milljónum króna. Þar af séu vanskil við tollstjóra vegna opinberra gjalda og eins ógreidd gjöld í lífeyrissjóði og stéttarfélög yfir 400 milljónir króna.
Félagið hefur lengi verið skuldum vafið og með skuldir við ríkissjóð, lífeyrissjóði, stéttarfélög og aðra, í vanskilum.