Birgir Þór Harðarson, blaðamaður á Kjarnanum, hefur verið tilnefndur til fjölmiðlaverðlauna umhverfis- og auðlindaráðuneytisins sem veitt verða föstudaginn 15. september næstkomandi. Frá þessu er greint á vef Stjórnarráðsins.
Birgir Þór er tilnefndur fyrir umfjöllun um loftslagsmál í Kjarnanum. „Birgir hefur fjallað ötullega um loftslagsmál með umfjöllun um innlenda sem erlenda þróun loftslagsmála á síðum Kjarnans,“ segir í tilnefningunni.
Fjórir eru tilnefndir til verðlaunanna. Auk Birgis eru það Áslaug Karen Jóhannsdóttir, Stundinni, fyrir fréttaskýringar um loftslagsmál í apríl-júlí 2017, Bergljót Baldursdóttir, Sunna Valgerðardóttir og Arnhildur Hálfdánardóttir, hjá fréttastofu RÚV, fyrir fréttaskýringar um loftslagsmál og Ævar Þór Benediktsson fyrir fjölbreytta umfjöllun um náttúru og umhverfismál í þáttunum Ævar vísindamaður á RÚV.
Fjallað hefur verið ítarlega um loftslagsmál í Kjarnanum síðan í aðdraganda loftslagsráðstefnunnar í París 2015. Áhersla hefur verið lögð á að veita íslenskum stjórnvöldum aðhald í þessum málaflokki, greina frá þeim tillögum og aðgerðum sem ráðist hefur verið í af hálfu stjórnvalda og upplýsa almenning um stöðu mála.
Í dómnefnd fyrir verðlaunin sitja Ragna Sara Jónsdóttir formaður, Jón Kaldal og Snæfríður Ingadóttir.
Alla umfjöllun Kjarnans um loftslagsmál má finna á undirvefnum kjarninn.is/loftslagsmál.