Útgjöld til móttöku flóttamanna og hælisleitenda sem veitt er hæli hér á landi munu meira en tvöfaldast á næsta ári. Fer upphæðin úr 150 milljónum í 410 milljónir, að þvi er fram kemur í Fréttablaðinu í dag. „Það er verið að auka verulega áhersluna á málaflokkinn. Þar er bæði aukin móttaka kvótaflóttamanna á milli ára en ekki er síður verið að verja fjármagni til þess að bæta frekar móttökur þeirra sem hér fá hæli,“ segir Þorsteinn Víglundsson velferðarráðherra í viðtali við blaðið.
Markmiðið sé, að því er fram kemur hjá Þorsteini, að samræma betur þá þjónustu, sem veitt er þeim sem fá hæli hér á landi, við þá þjónustu sem kvótaflóttamönnum er veitt þegar kemur að húsnæðisleit, atvinnuleit og öðrum úrræðum.
Sú verkaskipting er höfð meðal ráðuneyta í málefnum innflytjenda og hælisleitenda að dómsmálaráðuneytið er ábyrgt fyrir Útlendingastofnun og ákvörðun um það hverjir fá hér hæli og hverjir ekki. En í málefnum kvótaflóttamanna marka utanríkisráðuneytið og velferðarráðuneytið stefnuna, hversu margir flóttamenn koma og hvaðan þeir koma. Eins og fram kom í tilkynningu frá velferðarráðuneytinu í síðustu viku hefur sú stefna verið mörkuð fyrir næsta ár. Tekið verður á móti 50 flóttamönnum, einkum fólki frá Sýrlandi og hinsegin flóttamönnum.