Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, hefur sent bréf til dómsmálaráðuneytisins, Útlendingastofnunar, kærunefndar útlendingamála og alþjóðadeildar Ríkislögreglustjóra þar sem hann óskar eftir því að ákvörðun um að vísa Haniye Maleki og Abrahim Maleki úr landi verði ekki framkvæmd á fimmtudag líkt og stendur til. Ástæðan er sú að hann, og aðrir þingmenn, ætla að leggja fram frumvarp um að veita þeim feðginum ríkisborgararétt um leið og Alþingi verður sett á morgun, 12. september.
Logi segir í stöðuuppfærslu á Facebook að það sé „eðlilegt og mannúðlegt að þau verði ekki flutt úr landi fyrr en alþingi, sem hefur heimild að lögum til veitingu ríkisborgararéttar, hefur fjallað um málið. Þá væri með brottvísun þeirra nú brotið gegn meðalhófi. Nefna má að fordæmi er fyrir því að Alþingi veiti ríkisborgararétt með skjótum hætti, t.d. þegar Bobby Fischer fékk ríkisborgararétt árið 2005. Þá afgreiddi Alþingi málið á innan við sólarhring.“
Þá hefur þingflokkur Bjartar framtíðar, sem situr í ríkisstjórn, tilkynnt að hann muni leggja fram frumvarp um breytingu á lögum um útlendinga. Í tilkynningu frá honum segir að breytingartillögurnar muni „ snúa fyrst og fremst að stöðu barna og fólks í viðkvæmri stöðu, sem eins og fram hefur komið að undanförnu eru ákvæði sem þarf að skýra. Útlendingalögin eru umfangsmikil löggjöf og legið hefur fyrir frá samþykkt breytinga á þeim að lögin verða að vera lifandi plagg, ekki síst gagnvart þeim málaflokkum sem eru í hraðri þróun, líkt og málefni flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd.“
Verður vísað úr landi á fimmtudag að óbreyttu
Greint var frá því fyrr í daga að vísa eigi hinni ellefu ára gömlu Haniye Maleki úr landi á fimmtudag ásamt föður sínum. Þeim var tilkynnt um þetta á fundi með stoðdeild ríkislögreglustjóra í húskynnum Útlendingastofnunar í morgun.
Kjarninn greindi frá því í morgun að Samfylkingin ætli að leggja fram frumvarp í vikunni um að veita tveimur stúlkum úr hópi hælisleitenda, Haniye og Mary, og fjölskyldum þeirra íslenskan ríkisborgararétt. Logi Einarsson, formaður flokksins, segir í stöðuuppfærslu á Facebook í gær að flokkurinn hafi þegar óskað eftir meðflutningi allra þingmanna þegar málið verði lagt fram og hafi nokkrir þegar svarað játandi. Þeir komi úr ýmsum flokkum. Ekki mun hins vegar takast að afgreiða það frumvarp áður en Haniye Maleki og föður hennar verður vísað úr landi.
Þingmenn þriggja stjórnarandstöðuflokka, Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna, sendu sameiginlega yfirlýsingu frá sér um helgina þar sem þeir mótmæltu brottvísun stúlknanna og tveir stjórnarþingmenn hafa gagnrýnt ákvörðunina opinberlega. Því virðist sem dómsmálaráðherra muni ekki geta treyst á stjórnarmeirihlutann til að fella frumvarpið komi það til atkvæðagreiðslu.
Ekki einhugur innan stjórnarflokka
Sigríður Andersen dómsmálaráðherra sagði um helgina að ákvörðun um brottvísun stúlknanna yrði ekki endurskoðuð. Það kæmi ekki til greina. Í samtali við RÚV sagði hún: „Nei, það kemur ekki til greina að endurskoða mál sem dúkka hérna tilviljanakennt upp í umræðunni. Það kemur ekki til greina af minni hálfu sem ráðherra að taka fram fyrir hendurnar á sjálfstæðri stjórnsýslustofnun eins og kærunefnd í málum sem hafa fengið tvöfalda málsmeðferð hér á landi.“
Að minnsta kosti tveir stjórnarþingmenn hafa lýst því yfir að þeir mótmæli brottvísun stúlknanna. Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, sagði í stöðuuppfærslu á Facebook fyrir helgi að hún væri þeirrar skoðunar „að sein meðferð mála varpi enn ríkari ábyrgð á okkur varðandi það að láta mannúð ráða för frekar en ítrustu laga- og reglugerðartúlkanir. Hin nígerísku Sunday Iserien og Joy Lucky og dóttir þeirra Mary sem og afgönsku feðginin Hanyie og Abrahim Maleki eiga það t.d. skilið af okkar hálfu.
Ég styð heilshugar að þessar tvær fjölskyldur fái að halda áfram að byggja upp nýtt líf hér á landi. Að baki þeim stuðningi mínum liggja mannúðarástæður. Stundum er það einfaldlega nóg.“
Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar, sagði á sama vettvangi á laugardag að það mætti alltaf taka „lög eru lög“ afstöðu en þá væri „bara spurning hvernig lögin eigi að vera og ég get ekki sagt að mér finnst lögin og framkvæmd þeirra vera í lagi ef þetta er hægt. Það á að slá á frest framkvæmd þessara brottvísana og skoða í kjölfarið hvernig við tryggjum að það sem við gerum stenst Barnasáttmála SÞ.“
Ljóst er því að dómsmálaráðherra getur því ekki treyst á stjórnarmeirihlutann til að koma í veg fyrir að frumvarpið verði að lögum, komi það til atkvæðagreiðslu. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa sem stendur eins manns meirihluta á Alþingi.