Magnús Ólafur Garðarsson, stofnandi og fyrrverandi forstjóri United Silicon, hefur sent frá sér tilkynningu vegna kæru sem stjórn United Silicon lagði fram á hendur honum í gær vegna gruns um stórfelld auðgunarbrot og skjalafals.
Vitnað er til hennar á vef Vísis, þar sem hann ítrekar meðal annars sakleysi sitt, og segir ásakanir á hendur honum með öllu tilhæfulausar.
Í frétt Vísis segir að þetta mál sé farið að snúast um baráttu um hlutaféð í United Silicon. „Arion Banki hefur farið með stjórn á félaginu síðan í vor, þar sem erfiðlega gekk að reka verksmiðjuna af tæknilegum ástæðum, auk þess sem það vantaði fé til þess að lagfæra hana og koma rekstrinum í lag. Arion Banki og hluthafar í hópi með bankanum komu að mestu leyti með það fé, en kröfðust þess í staðinn að taka völdin í félaginu. Það gerðu þeir með því að setja inn sína eigin stjórnarmenn. Ég samþykkti það og fór út úr stjórn félagsins til að greiða veginn til að laga það sem laga þurfti. Bankinn stoppaði hins vegar ekki þar og hefur hann í síðustu viku reynt að taka hlutabréf okkar einstaklinga sem hafa fjárfest í félaginu. Nú í þessari viku hef ég verið kærður fyrir eitthvað meint brot, sem ég get ekki ímyndað mér hvað er, enda hef ég ekki heyrt neitt um málið fyrr enn í gærkvöldi og þá í gegnum fjölmiðla. Það er augljóst að Arion Banki er að reyna að koma mér í eins lélega stöðu og mögulegt er, svo hann geti eignast allt félagið án þess að borga fyrir það. Þetta eru með skítugustu brögðum sem ég hef séð beitt í viðskiptaheiminum.
Ég bíð eftir að heyra hver þessi meintu brot eru, svo ég geti varið mig og sannleikurinn komi fram. Ég er tilbúinn að vinna með stjórn félagsins og/eða héraðssaksóknara til að lýsa málinu frá öllu hliðum,“ segir Magnús í tilkynningunni.
United Silicon rekur kísilmálmverksmiðju í Helguvík. Félagið óskaði eftir greiðslustöðvun 14. ágúst síðastliðinn. Ástæðan eru erfiðleikar í rekstri kísilmálmverksmiðjunni sem hóf framleiðslu í nóvember 2016, og rekja má til síendurtekinna bilana í búnaði sem hafa valdið félaginu miklu tjóni. Nýfallinn gerðardómur í deilu félagsins við ÍAV hf. eykur enn á óvissu félagsins. Samkvæmt honum þarf United Silicon að greiða ÍAV um einn milljarð króna. Greiðslustöðvun fyrirtækisins var framlengd í vikunni og gildir nú fram í desember.
Á meðal hluthafa og lánveitenda þess eru Arion banki og íslenskir lífeyrissjóðir. Alls nam fjárfesting lífeyrissjóða í verkefninu um 2,2 milljörðum króna. Þar af fjárfestu þrír lífeyrissjóðir sem eru í stýringu hjá Arion banka í verkefninu fyrir 1.375 milljónir króna. Frjálsi lífeyrissjóðurinn lagði til langstærstan hluta þeirrar upphæðar, eða 1.178 milljónir króna. Hinir tveir sjóðirnir eru Eftirlaunasjóður félags íslenskra atvinnuflugmanna (EFÍA) og Lífeyrissjóð starfsmanna Búnaðarbanka Íslands (LSBÍ). Arion banki rekur alla sjóðina þrjá, starfsfólk bankans gegnir stjórnunarstöðum í þeim og þeir eru til húsa í höfuðstöðvum hans í Borgartúni.
Alls skuldar United Silicon Arion banka um átta milljarða króna. Auk þess færði bankinn niður virði 16,3 prósenta hlutafjáreign sinnar í fyrirtækinu í hálfsársuppgjöri sínu í síðasta mánuði.