Ríkissjóður verður rekinn með 44 milljarða króna afgangi á næsta ári samkvæmt fjárlagafrumvarpi ársins 2018 sem var kynnt í morgun. Afgangur fyrir vexti verður 104 milljarðar króna en ríkissjóður mun greiða 73 milljarða króna í vexti á árinu 2018. Á móti hefur ríkið einnig vaxtatekjur upp á 12 milljarða króna. Alls verða tekur ríkissjóðs 834 milljarðar króna en gjöld 790 milljarðar króna. Þar kemur einnig fram að ferðaþjónusta fari í almennt þrep virðisaukaskatts í janúar 2019, en áður hafði verið gert ráð fyrir að það myndi gerast um mitt næsta ár. Á sama tíma mun almenna virðisaukaskattsþrepið lækka úr 24 prósentum í 22,5 prósent.
Á meðal helstu áherslumála í fjárlagafrumvarpinu eru að tekjutrygging hækkar, stofnstyrkir til byggingar almennra íbúða verða þrír milljarðar króna og stuðningur við fyrstu íbúðarkaup verður festur í sessi. Hæstu greiðslur í fæðingarorlofi munu hækka úr 500 í 520 þúsund krónur og framlög vegna móttöku flóttamanna verða þrefölduð.
Í tilkynningu segir að hugað verði sérstaklega að geðheilbrigðismálum í kerfinu og að bygging nýs Landspítala muni hefjast á seinni hluta ársins 2018 þegar vinna við meðferðakjarna við Hringbraut hefst. Framlög til byggingar spítalans munu verða 2,8 milljarðar króna á næsta ári og alls munu heilbrigðis- og velferðarútgjöld hækka um 4,6 prósent umfram launa- og verðlagsþróun.
Grænir skattar verða lagðir á kolefnisútblástur en ívilnanir til kaupa á vistvænum bílum verða framlengdar í þrjú ár. Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum lítur dagsins ljós á næstunni með fjölþættum aðgerðum víða í stjórnkerfi og hjá stofnunum ríkisins. Á árinu 2018 verða skref stigin í átt að samræmdu kerfi grænna skatta. Kolefnisgjald er hækkað og gjaldtaka af bensíni og dísilolíu jöfnuð. Ívilnanir vegna kaupa á rafbílum, sem hefðu fallið niður, verða framlengdar í þrjú ár.
Tæplega 18 milljarðar króna fara í framkvæmdir og viðhald vega. Meðal stærstu verkefna verða Dýrafjarðargöng, nýr kafli hringvegarins í Berufjarðarbotni og ný Vestmannaeyjaferja.
Í tilkynningunni segir: „Heildarskuldir ríkissjóðs hafa lækkað fyrri hluta árs 2017 um nálægt 200 milljarða króna. Áfram eru vaxtagreiðslur afar stór útgjaldaliður og munu nema 73 ma.kr. á árinu 2018 að meðtöldum reiknuðum vöxtum vegna lífeyrisskuldbindinga sem nema 14 ma.kr. Á móti koma vaxtatekjur upp á 12 ma.kr. Gert er ráð fyrir að skuldir lækki áfram hratt á árinu 2018, eða um 36 milljarða en ráðgert að skuldir hins opinbera fari niður fyrir 30% árið 2019.“
Nánar verður fjallað um fjárlagafrumvarpið á Kjarnanum í dag.