Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, sagði í stefnuræðu sinni á Alþingi í kvöld, að staða efnahagsmála væri um margt góð um þessar mundir, þá væri það í okkar höndum spila vel úr góðri stöðu.
Hann sagði að stærsta einstaka efnahagsvandamálið á Íslandi væri það, að reynd væri vinnumarkaðslíkanið, sem unnið væri eftir, ónýtt. Nú væri mikilvægt að alir sem kæmu að kjaraviðræðum, tækju höndum saman um að horfa til þess hversu mikið svigrúmið til launahækkana án þess að það bitnaði á samkeppnishæfni þjóðarbúsins. „Framundan eru mikilvægir samningar á vinnumarkaði. Allir aðilar verða að rísa undir þeirri ábyrgð sem á þeim hvílir með sama hætti. Augljóst er að ábyrgð fylgir því að semja, en rétturinn til að semja ekki er einnig vandmeðfarinn. Þegar farið er út af sporinu í kjaraviðræðum á Íslandi með samningum sem þykja ekki samræmast stöðugleika hefst samkvæmisleikur sem við gætum kallað: Hver er sökudólgurinn?
En það er allt of mikil einföldun að skella skuldinni á kröfugerð launþega, einstaka atvinnurekendur, eða eftir atvikum ríkisstjórn eða sveitarfélög sem látið hafa undan þrýstingi um samninga, þegar aðferðafræðin við að leiða fram niðurstöðu er jafn gölluð og raun ber vitni. Leitin að sökudólgnum beinir sjónum frá aðalatriðinu. Vinnumarkaðslíkanið er í raun ónýtt. Þetta eru stór orð. En hver getur mótmælt þessu þegar hver höndin er uppi á móti annarri, nær engin samvinna til staðar og skipulagið tilviljanakennt og breytilegt frá einum kjaraviðræðum til þeirra næstu. Þetta er stærsti einstaki veikleiki íslenskra efnahagsmála um þessar mundir,“ sagði Bjarni.
Hann gerði hina svonefndu fjórðu iðnbyltingu, sem væri knúin áfram af miklum tækniframförum, einnig að umtalsefni, og sagði stjórnvöld þurfa að huga að þeim fjölmörgu álitamálum sem breyttur heimur kallaði fram. „En þessar miklu breytingar munu ekki einvörðungu snerta börnin okkar og framtíð þeirra. Það er ljóst að stærstu fyrirsjáanlegu breytingar næstu ára munu koma við þá sem eru nú þegar á vinnumarkaðnum. Starfsfólk á ýmsum sviðum mun á komandi árum þurfa að bæta við þekkingu og hæfni sína til að fylgja straumi nýrra tíma. Hér reynir mikið á stjórnvöld, atvinnulífið, verkalýðshreyfinguna og menntakerfið. Þessi þróun er og verður mikil áskorun, áskorun sem við verðum að rísa undir og leggja til tíma, kraft og fjármuni,“ sagði Bjarni.