Framlög til Persónuverndar munu tæplega tvöfaldast á næsta ári, samkvæmt nýframlögðu fjárlagafrumvarpi. Fjárframlög til stofnunarinnar fara úr 117,3 milljónum á þessu ári í 209 milljónir á næsta ári.
Ástæðan fyrir þessari hækkun er meðal annars breytt og umfangsmeira hlutverkt Persónuverndar vegna breytingar á Evrópulöggjöf sem varðar persónuverndarmál og meðferð persónuupplýsinga. Samkvæmt löggjöfinni munu fyrirtæki og stofnunar þurfa að tilefna svonefndan persónuverndarfulltrúa, og mun Persónuvernd annast undirbúning og fræðslustarf vegna þessara miklu breytinga sem eru í farvatninu.
Þá kemur fram í upplýsingum með fjárlagafrumvarpinu að fjölga þurfi starfsmönnum Persónuverndar umtalsvert til að anna þeim störfum breytt löggjöf kallar á.
Ríkissjóður verður rekinn með 44 milljarða króna afgangi á næsta ári samkvæmt fjárlagafrumvarpi ársins 2018 sem var kynnt í gærmorgun. Afgangur fyrir vexti verður 104 milljarðar króna en ríkissjóður mun greiða 73 milljarða króna í vexti á árinu 2018, samkvæmt frumvarpinu.
Á móti hefur ríkið einnig vaxtatekjur upp á 12 milljarða króna. Alls verða tekur ríkissjóðs 834 milljarðar króna en gjöld 790 milljarðar króna. Þar kemur einnig fram að ferðaþjónusta fari í almennt þrep virðisaukaskatts í janúar 2019, en áður hafði verið gert ráð fyrir að það myndi gerast um mitt næsta ár. Á sama tíma mun almenna virðisaukaskattsþrepið lækka úr 24 prósentum í 22,5 prósent.
Á meðal helstu áherslumála í fjárlagafrumvarpinu eru að tekjutrygging hækkar, stofnstyrkir til byggingar almennra íbúða verða þrír milljarðar króna og stuðningur við fyrstu íbúðarkaup verður festur í sessi. Hæstu greiðslur í fæðingarorlofi munu hækka úr 500 í 520 þúsund krónur og framlög vegna móttöku flóttamanna verða þrefölduð.
Í tilkynningu segir að hugað verði sérstaklega að geðheilbrigðismálum í kerfinu og að bygging nýs Landspítala muni hefjast á seinni hluta ársins 2018 þegar vinna við meðferðakjarna við Hringbraut hefst. Framlög til byggingar spítalans munu verða 2,8 milljarðar króna á næsta ári og alls munu heilbrigðis- og velferðarútgjöld hækka um 4,6 prósent umfram launa- og verðlagsþróun.