Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir að stjórnvöldum beri skylda til að hugsa um velferð fólksins í landinu, en ekki einungis horfa á hvort „kerfið“ virki og hvort tölurnar passi inn í það.
Í ræðu sinni á Alþingi í kvöld, eftir stefnuræðu Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra, sagði hún að þrátt um margt góðar efnahagshorfur þá þurfi að horfa til meiri jafnaðar í samfélaginu. „Ég hef áhyggjur af því að þrátt fyrir efnahagslegan uppgang vanti svolítið upp á þennan sameiginlega skilning á því hvað felst í samfélagi. Ég hef áhyggjur af því að of margir séu beðnir um að bíða eftir réttlætinu. Og af því að spurt er hvað valdi því að fólk komi sér ekki saman um einfalda hluti eins og forgangsröðun þá er rétt að svara þeirri spurningu fyrir mitt leyti. Hér á Íslandi þarf stjórnvöld sem treysta sér til að útrýma fátækt. Um það hefur ekki verið eining hér á Alþingi þó að sumir stjórnmálamenn tali eins og hér séu allir sammála um tekjujöfnunarhlutverk skattkerfisins. En í raun höfum við ekki verið sammála um að skattkerfið eigi að tryggja jöfnuð,“ sagði Katrín og lagði áherslu á að bregðast þyrfti við aukinni misskiptingu í samfélaginu.
„Hér þarf stjórnvöld sem eru reiðubúin að bregðast við því að ríkustu tíu prósentin á Íslandi eiga þrjá fjórðu alls auðs í landinu. Launajöfnuðurinn sem hæstvirtur forsætisráðherra nefndi hér áðan er nefnilega aðeins annar hluti myndarinnar. Vaxandi misskipting auðsins sprettur beinlínis af pólitískum ákvörðunum. Sem hingað til hafa verið þær að ekki megi skattleggja auðinn, ekki megi skattleggja fjármagnseigendur eins og venjulegt launafólk, ekki megi setja sérstakt hátekjuþrep á verulega háar tekjur eins og þær sem skila sér í kaupaukagreiðslum sem margir þingmenn flytja vandlætingarræður um en heykjast svo á að taka á í gegnum skattkerfið. Sama má segja um bótakerfin, vaxtabætur og barnabætur, sem nýtast æ færri. Á bak við það eru líka pólitískar ákvarðanir sem hafa ekki miðað að því að auka jöfnuð og draga úr misskiptingu, heldur þvert á móti,“ sagði Katrín.
Hún sagði enn fremur í ræðunni, að í samfélaginu þurfi umræða um réttlæta að snúast um mannúð og jöfnuð. Ekki væri boðlegt að senda börn úr landi, jafnvel þó „kerfið“ gæfi færi á því. „Sama má segja um fólk á flótta sem hingað leitar. Talsvert fleiri börnum er vísað frá Íslandi en fá hér hæli. Börnum sem alveg örugglega hafa haft lítið val um örlög sín. Þau eru send héðan til landa sem tölvan segir að séu örugg eða hafa meiri reynslu í því að taka á móti fólki á flótta. Gildir þá einu hvað börnin sjálf hafa að segja. Stjórnmálamenn vísa í úrelta Dyflinnarreglugerð og segja: Réttlætið verður því miður að bíða að þessu sinni. Tölvan segir nei. Getum við sagt að samfélag þar sem 36 börnum er vísað úr landi – talsvert fleirum en fá dvalarleyfi – sé réttlátt?
Þetta snýst ekki um einstaka stjórnmálamenn. Og ég er ekki heldur að segja að kerfi séu slæm í eðli sínu. En frumskylda stjórnmálamanna er við fólkið. Og leikreglurnar eiga að þjóna fólkinu, tryggja réttlæti og mannúð fyrir alla. Getum við sagt að samfélag þar sem stórum hópum fólks er haldið í fátæktargildru sé réttlátt? Fólks sem hefur til dæmis ekki valið sér þau örlög að verða óvinnufært?“ sagði Katrín.