Til stóð að lög um 200 milljón dala ríkisábyrgð vegna fjármögnunar á starfsemi Íslenskrar Erfðagreininga yrðu felld úr gildi. Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnhagsráðherra í ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar sem féll fyrir helgi, ætlaði að leggja fram frumvarp á Alþingi um þetta í þessum mánuði. Upphæðin er um 21,1 milljarðar króna á núvirði. Þetta kom fram í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar.
Ríkisábyrgðin, sem var fest í lög 23. maí 2002, er ekki bundin neinum tímaramma og því þarf lagabreytingu til að fella hana út úr íslenskum lögum.
Fékk aldrei ábyrgðina
Íslensk erfðagreining fékk aldrei ríkisábyrgðina og fyrirtækið fjármagnaði áform sín með öðrum hætti. Móðurfélag Íslenskrar erfðagreiningar var svo selt til bandaríska líftækni- og lyfjaframleiðslufyrirtækisins Amgen á 415 milljónir dala í desember 2012. Eigendur móðurfélagsins, DeCode, áður en sú sala fór fram var fjárfestingafélag í eigu áhættufjárfestusjóðanna Polaris Venture Partners og Arch Venture Partners. Þeir höfðu eignast Íslenska erfðagreiningu þegar fyrrverandi móðurfélag þess var tekið til skiptameðferðar síðla árs 2009. Auk sjóðanna áttu Kári Stefánsson, stofnandi og forstjóri DeCode, og á annan tug einstaklinga lítinn hlut í félaginu.
Íslensk erfðagreining er því töluvert öðruvísi fyrirtæki í dag en það var árið 2002, þegar lögin um ríkisábyrgðina voru sett.
Pólitísk ákvörðun
Ríkisábyrgðin var gífurlega umdeild á sínum tíma og harðlega gagnrýnd, meðal annars fyrir að vera pólitísk. Á meðal þeirra sem settu fram gagnrýni á hana voru aðilar vinnumarkaðarins og stjórnarandstaðan. Sá sem beitti sér mest fyrir lagasetningunni um ríkisábyrgðina var Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra. Lög um ábyrgðina voru á endanum samþykkt með minnihluta atkvæða, eða 27 talsins.
Líkt og áður sagði kom þó aldrei til þess að ríkisábyrgðin tæki gildi. Íslensk erfðagreining sótti um ábyrgð og verða átti við því. Málið fór þaðan til skoðunar hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) sem átti að meta hvort þetta væri í samræmi við reglur Evrópska Efnahagssvæðisins. Áður en ESA tók ákvörðun í málinu dró Íslensk erfðagreining hins vegar beiðni sína til baka.
Hafa aldrei verið felld úr gildi
Lögin um ríkisábyrgðina hafa hins vegar aldrei verið felld úr gildi. Í mars 2008 greindu fjölmiðlar frá því að lögmenn á nefndarsviði Alþingis, ásamt sérfræðingi í fjármálaráðuneytinu, hefði unnið álit um hvort hægt væri að veita ríkisábyrgðina ef kallað yrði eftir því. Í álitinu kom fram að ráðherra hefði þá heimild ef beiðni frá Íslenskri erfðagreiningu kæmi fram.
Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra í ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar, lagði fram frumvarp á síðasta kjörtímabili til að nema heimildina um ríkisábyrgðina úr gildi. Það frumvarp var hins vegar aldrei afgreitt.
Og nú, áður en ríkisstjórnin féll, ætlaði Benedikt Jóhannesson að leggja fram frumvarp sama efnis og fjarlægja ríkisábyrgðina umdeildu í eitt skipti fyrir öll úr íslenskum lögum.