Sigríður Andersen, dómsmálaráðherra, upplýsti Bjarna Benediktsson, forsætisráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, um það í júlí, að Benedikt Sveinsson, faðir hans, væri meðal meðmælenda Hjalta Sigurjóns Haukssonar, dæmds barnaníðings, sem nauðgaði og misþyrmdi stjúpdóttur sinni í tólf ár og hlaut fyrir það dóm í Hæstarétti. Brotin áttu sér stað þegar stúlkan var 5 til 17 ára.
Þetta kemur fram á vef Vísis, en vefurinn greindi fyrstur miðla frá því í dag, að Benedikt Sveinsson hefði verið meðal þeirra sem mæltu með uppreist æru fyrir Hjalta. Viðtalið við Sigríði var birt í fréttum Stöðvar 2.
Þetta kom fram í viðtali við Sigríði Á. Andersen, dómsmálaráðherra, í beinni útsendingu í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.
Hún sagði að embættismenn hefðu henni greint henni frá því í lok júlí að faðir Bjarna væri á meðal umsagnaraðila Hjalta. Hún hefði talið rétt að láta forsætisráðherra vita af því.
„Hann kom algjörlega af fjöllum,“ sagði Sigríður í viðtali við Stöð 2 og Vísi.
Dómsmálaráðuneytið hefur enn ekki birt gögnin um votta þeirra sem hafa fengið uppreist æru, líkt og úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingamál segir til um. Einungis hafa verið birt gögnin í máli Roberts Downey, sem var til umfjöllunar í fyrrnefndu máli. En upplýsingafulltrúi ráðuneytisins, Jóhannes Tómasson, hefur upplýst um að unnið sé að því.