Björt Ólafsdóttir, umhverfisráðherra, segir að flokksmenn hafi verið alveg samstíga um að lengra væri ekki komist í ríkisstjórnarsamstarfinu.
Hún segir að trúnaðarbresturinn í samstarfinu hafi falist í því, að Bjartri framtíð hafi ekki verði treyst fyrir upplýsingum sem skiptu sköpum í þeirri atburðarás sem nú hefur leitt ríkisstjórnina á endastöð.
Þetta kom fram í viðtali við morgunútvarpið á RÚV.
Hún segir að það hafi hafi komið á óvart, og „leyndarhyggja verið viðhafin“, þegar Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra lét Bjarna Benediktsson forsætisráðherra vita af því, í júlí mánuði, að faðir hans, Benedikt Sveinsson, væri meðal meðmælenda í umsókn Hjalta Sigurjóns Haukssonar, barnaníðings, um uppreista æru.
Þetta séu vinnubrögð sem hún telji ekki samræmast góðri stjórnsýslu, og að innan Bjartrar framtíðar sé þetta ekki samþykkt. Hún sagðist telja eðlilegt að boða til kosninga, eins á mál stæðu nú.
Stjórn Bjartrar framtíðar ákvað í gærkvöldi að slíta sig frá ríkisstjórnarsamstarfi með Sjálfstæðisflokknum og Viðreisn.
Þingflokkur Viðreisnar hefur þegar sent frá sér tilkynningu, þar sem hann telur eðlilegt að boða til kosninga.